Tilvitnun dagsins

Tilvitnun dagsins á litli bróðir minn, sem hefur alveg sérstakan talanda þegar hann reynir að bæta mettímann í að koma einhverju frá sér. Í þetta sinn sagði hann mér brandara úr einhverjum grínþætti:
&#8222Það var ógeðslega fyndið í Tom and Berry, þegar Sparky kom svona með hjarta á Valentine’s Day, og sagði: Here’s a card in time og þá var alveg: Oh, no! Not a real heart, sagði Exwife!&#8220
Ég gat ekki varist því að skella upp úr. Ekki vegna þess að brandarinn væri svona fyndinn, heldur vegna þess að hann heldur áreiðanlega að fyrrverandi eiginkonan heiti Ex-Wife. Segið svo að sjónvarpið ali ekki á staðalmyndum!
Annars er fyrrverandi eiginkonan einum of týpískur karakter, sem nánast undantekingarlaust er mannfjandsamleg og aðalpersónunni til trafala þegar hann fremur einhver af sínum fjölmörgu axarsköftum, þar sem hann er jú bara feitur einfeldningur sem drekkur bjór, þegar allt kemur til alls. Reyndar, þegar ég hugsa um það, er þessi málsgrein nærri fullnægjandi sem innihaldsgreining á bandarísku skemmtiefni. Það vantaði bara heimskari vininn (haltur leiðir blindan), sem ávallt er með aðra höndina í ísskáp fjölskylduföðurins og hina í klofinu, og skapvonda heimilisafann sem enginn veit hvers vegna býr inni á feitum syni sínum, fallegu núverandi (eða ævarandi) eiginkonu hans og þremur óþolandi krökkum.
Krakkarnir eru að sjálfsögðu sérkapítuli, en þeir eru undantekningarlaust þrír: Stóra systirin, sem á kærasta sem á mótorhjól, pabbinn þolir ekki en mömmunni finnst í lagi. Millibróðirinn, sem neitar að læra heima nema eftir smá quality time með föður sínum, er í uppreisn gagnvart móðurinni og, ef því er að skipta, ömmunni líka. Síðast en ekki síst er sá sem mest er óþolandi, en það er litla stelpan sem á yfirborðinu er sæt, stillt og prúð, en undir niðri er hún lævis og undirförul og fær allt sem hún vill. Hún á aðeins einstaka sinnum í útistöðum við miðjubróðurinn, en þeim viðskiptum líkur undantekningarlaust þannig að litla hefur betur, enda svo mikil pabbastelpa. Og mömmustelpa, ef svo ber undir.
En jæa, nóg komið af þessu rugli. Nú er það rússneska og Gunnar Gunnarsson!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *