Hugleiðingar

Enska þykir mér ekki fallegt tungumál eins og hún er töluð í dag. Alvöru ensku má finna í verkum manna eins og Edgars Allans Poe.

Að sama skapi þykir mér íslenska hafa átt sinn fífil fegurri.

En það þýðir lítið að sýta breytingarnar. Það er fyrst og fremst hvers og eins að reyna að breyta því sem hann vill fá breytt.

Af þeim sökum hata ég sinnuleysi og ber minni virðingu fyrir sinnulausum en öðrum. Það er vegna sinnuleysis sem erfitt er að berjast fyrir málefnum.

Þá á ég ekki endilega við íhaldssama málstefnu. Raunar á ég við allt annað en íhaldssama málstefnu. Hvað um allt það sem illa er gert og verður að stöðva?

Það verður aldrei stöðvað. Til þess er mótmælaþunginn of lítill. Eiginlega er varla hægt að tala um neinn þunga í því sambandi.

Öll málefnavinna verður alltaf unnin í litlum hópum hugsjónamanna, sem allir vita að baráttan var töpuð áður en hún hófst.

Valdið til breytinga verður alltaf hinna fáu en aldrei allra. Lýðræði er að því leyti ekki til. Eina leiðin til breytinga er að skipta út embættismönnum.

En þjóðin er sinnulaus. Þess vegna fær þjóðin aldrei sína fulltrúa til ákvarðanatöku.

Hvaða gagn er líka í því að skipta út fólki í efstu sæti ákvarðanatöku? Hinir nýju eru alveg jafn fáir og munu eftir sem áður taka sömu ákvarðanir.

Slíkt tilgangsleysi hugsjóna elur þær af mönnum. Ef það er ekki hægt að berjast þá er engin ástæða til að berjast. Ef það er engin ástæða til að berjast þá er engin ástæða fyrir hugsjónum. Ef það er engin ástæða fyrir hugsjónum þá er engin ástæðu til annars en að sætta sig við hlutina eins og þeir eru.

Þannig elur sinnuleysi af sér sinnuleysi og sinnuleysi á ofan.

Þakkir

Mín helsta stoð í lífinu er að vita af fólki sem gerir sig út fyrir að hafa áhuga á mér og gerðum mínum. Það þykir mér vænt um, og hefur hvatt mig til dáða. Ef ég svo kæmist að því að það væri allt saman lygi myndi ég áreiðanlega skrá mig í frönsku útlendingahersveitina (hvurslags hersveit er það nú eiginlega annars? Eru þeir bara útlendingar í augum útlendinga, eða líka í eigin augum? Varla líta þeir á sjálfa sig sem útlendinga. Nema þeir líti á sig sem útlendinga í eigin landi, einhvers konar landeyður sem þurfa þjóðarskorts síns vegna að berjast við glæpamenn á fjarlægum söndum? Öh, ble.). Ég veit ekki hvurslags skrípi ég kannski væri ef ekki væri fyrir það að í það minnsta eru örfáar sálir sem hafa trú á mér, einhverra órannsakanlegra hluta vegna, en þess lags stuðningur verður ekki metinn til fjár.
En þetta er sumsé ekki þunglyndispistill, heldur einhvers konar þakkarræða til einskis sérstaks. Ég er nefnilega þeim lesti gæddur að geta ekki tekið á móti hrósi, verð vandræðalegur, eins og mér sé þvert um geð að svara (maðurinn sem dó úr lítillæti? Ekki ég!), og styn í besta falli aumingjalegum þökkum sem eflaust virka í meira lagi yfirborðskenndar og ómeintar. Þess vegna finnst mér tímabært að koma að minnsta kosti einhverjum þökkum frá mér. Kannski les þetta einhver sem á það inni. Þeir taki það bara til sín sem þykjast eiga það.