Sjálfsvíg

Hvers vegna er aldrei rætt um þau? Nú geri ég mér grein fyrir því að fjölmiðlar fjalla ekki um einstaka sjálfsvíg af virðingu við aðstandendur, en er þeim einhver greiði gerður með þögninni? Væri ekki nær að horfast í augu við vandamálið og taka á því? Það leysir engan vanda að hylma yfir hann. Það sem þarf er opinská umræða, viðtöl við geðlækna og sálfræðinga um meðferðarúrræði, hvað skal gera ef þig grunar að einhver nákominn þér þjáist af þunglyndi og jafnvel, fáist einhverjir til þess, viðtöl við aðstandendur fólks sem framið hefur sjálfsvíg. Og ekki bara einu sinni, heldur hverju sinni sem einhver sviptir sig lífi. Það þarf ekki að nefna viðkomandi á nafn neinsstaðar, bara ræða vandann. Hverju hefur fólk svosem að tapa á því að það komi í fréttunum að einhver hafi framið sjálfsvíg? Það hjálpar í það minnsta fleirum en það skaðar. Þeir sem eru ósammála geta að minnsta kosti verið sammála um að allt er betra en þögnin, eða hvað?