Sá sem er fyrstur, hann vinnur

Ég minntist á Sódómu í síðustu færslu, velti því svo fyrir mér hvers vegna ég minntist ekkert á Gómorru. Hið fyrra verður alltaf frægara, eða í það minnsta tíðræddara: Sódóma og Gómorra, Hiroshima og Nagasaki, Bush og Blair, Simon og Garfunkel. Ætli Kaaber hafi fallið í skuggann af Ó. Jónssyni, eða var alltaf minnst á þá í sömu andrá? Hvað þá um Kormák og Skjöld? Siskel og Ebert virðast þeir einu sem tekist hefur að snúa þessu við, en eftir að Siskel hrökk upp af má segja að Ebert hafi setið að feitari bitanum. En maður má teljast nokkuð misheppnaður, takist honum ekki að standa betur að sínu lífi en lík.

Bækur og nefndarstörf

Fór með Brynjari Germannssyni á bókamarkað Eddu í fyllist-inn-múla. Keypti þar Ljóra sálar minnar og Mitt rómantíska æði eftir Þórberg Þórðarson, Hundshjarta Bulgakovs og Ljóðmæli Stefáns frá Hvítadal. Fékk Í spegli í gátu eftir Jostein Gaarder, sem frægur varð fyrir Veröld Soffíu, í kaupbæti. Litum við í Góða hirðinum í leiðinni og þar festi ég kaup á Ágripi af forníslenzkri bókmenntasögu, samanteknu af Sigurði Guðmundssyni.

Þá hefur mér tekist að troða sjálfum mér inn í skólaráð, sem er vel. Ég fæ því næg færi á að pönkast í jafnréttisstefnu skólans, sem eigi er vanþörf á. Þá á ég ekki við að allt sé í hers höndum í skólanum, heldur að geri megi betur. Og sérstaklega má gera betur þar sem ekkert er gert til að byrja með.

Fattaði Áhyggjudúkkur áðan. Hún fjallar um syndaflóðið og Reykjavík er Sódóma. Mikið var það nú frumlegt.