Deyr Horst, deyr Derrick, deyr Tappert ið sama

Þeir sem afneita sögusögnum af dauða Horst Tapperts árin 1998 og 1999 hljóta að gefast upp við að heyra af þriðja dauða Derricks. Allt er þegar þrennt er, eða hvað?

Svo eru þeir sem neita því að þeir kumpánar Derrick og Klein hafi verið töff. Það er fjarri sanni og hér er jartein fyrir því.

Ojbara

Ég hafði ráðgert mér merkari athafnir þennan árhaustsaftan en að lesa: „Wien ist die Haupstadt von Österreich“ og „Wolfgang Amadeus Mozart wurde in Salzburg geboren“.

Margt annað vildi ég heldur lesa. Til marks um það hafa mér áskotnast þrettán bækur á örfáum dögum. Græðgi mín þekkir sér engin takmörk. Líklegast enda ég eins og Galdra-Loftur. Þá á ég ekki við löngun hans í Rauðskinnu, framsæringar á framliðnum byskupum, samskipti hans við djöfulinn eða girnd hans í ungar vinnukonur prestssetursins að Hólum, heldur bókasöfnunaráráttu hans, svo það sé á hreinu.

Jæa, áfram með „Österreich ist geprägt von gegensätzen“ o.s.v.

Dagbækur

Ég hef eytt nokkrum tíma í að rýna í gamlar dagbækur. Gerði mér ekki grein fyrir því að sé bloggið talið með hef ég haldið dagbók nær óslitið í fjögur og hálft ár. Það sem lesendur þessarar vefdagbókar minnar gera sér hins vegar kannski ekki grein fyrir, er að ég hef einnig haldið persónulega dagbók samfara blogginu. Þannig hef ég góðan vettvang fyrir hvers kyns persónulegar deleríngar annarsstaðar en frammi fyrir alþjóð, sem einmitt mun vera síðasti staðurinn fyrir slíka hluti. Þess vegna á aldrei að gefa út ævisögur manna fyrr en að minnsta kosti eftir að þeir deyja.

Annars mæli ég stranglega með dagbókarhaldi. Dagbækur verða manni sjálfum og öðrum (ekki hverjum sem er!) merkileg heimild um líf manns síðar meir. Ég gerði mér til dæmis ekki grein fyrir því hvurslags djöfulsins hálfviti ég var á fyrsta ári í menntaskóla. Sjálfsagt geri ég mér ekki ennþá grein fyrir því hvurslags endemis fífl ég er núna. En ég get bætt úr því eftir nokkur ár með því að halda dagbók núna.

Veikindi og verkefni

Sérdeilis er ég máttvana og duglítill þessa stundina. Og verkefnin byrjuð að hlaðast upp: Þýskupróf, tvær greinar, ein vel útpæld beinagrind að stórri ritgerð, kjánalegt líkamstjáningarverkefni í félagssálfræði, hugsanlegt þýðingarverkefni o.fl. Svo ekki sé minnst á önnur aðkallandi verkefni sem hrannast hafa upp í kringum mig til enn lengri tíma. Þessi vitneskja er ekki til að blása mér afli í brjóst.

Fundur í kvöld, fundur á fimmtudag, fundur á laugardag auk framtíðarfunda. Lesa Laxness, lesa Ishiguro, lesa The Closing of the Western Mind: The Rise of Faith and the Fall of Reason sem ég fékk að láni hjá Kjartani – þarf að skila eftir viku. Ekki spurt um tíma minn þar á bæ.

Skipuleggja fjármálin, skipuleggja fyrir félagslífið, skipuleggja eigið líf og hitta vinina. Æfa á gítarinn, stunda líkamsrækt (djók), semja kvæði og samt hafa tíma til átu og svefns.

Þriðja atriði þriðju efnisgreinar á náttúrlega að sjá um þetta allt saman. En hér sit ég og hef varla orku til að snýta mér. Þetta kalla ég haustdýfu númer eitt. Ég veikist alltaf á haustin, braggast og veikist aftur. Það er sumsé fyrsta dýfa af æði mörgum. Í fyrra var ég veikur fram í miðjan nóvember og sömuleiðis að mig minnir í hitt í fyrra. Þá fór ég til læknis sem kunni svarið við lífsgátunni af því einu að kremja á mér andlitið milli lófa sér. Það fannst mér ekki áreiðanleg vísindi. Öðru fremur er ég þess handviss að samanburður á bata þeirra sem fara til heimilislæknis og þeirra sem ekki fara til heimilislæknis myndi ekki skila marktækum muni. Sagði ekki Rómverjinn: Novus medicinus, nova sepulchrae.

Mikið er laugarneshverfið annars fallegt á haustbúngingnum svona baðað í sólarljósi.