Hinn hryllilegi sannleikur

Lengi hafði mig grunað að maðkur væri í mysunni hjá Blóðbankanum. Því fletti ég Sveini Guðmundssyni, yfirlækni Blóðbankans, upp í Íslendingabók. Þar kemur sannleikurinn í ljós: Hann lést 1817! Þá fletti ég upp stjórnarmeðlimum Blóðbankans. Friðrik Pálsson, formaður bankastjórnar, lést 1832. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir lést 1919, en Halldór Jónsson lést 1682.

Varið ykkur á Blóðbankanum, því þar sitja vampírur við stjórnvölinn. Þetta samsæri hefur gengið nógu lengi. Nú er tími aðgerða!

Klukk

Var klukkaður af Alla. Það þýðir víst að ég þarf að blogga fimm staðreyndir um sjálfan mig.

1. Þegar ég var lítill barði ég þá sem gerðu á hlut minn. Í áttunda bekk fann ég að ég hafði ekki lengur yfirburði og hætti allri ofbeldishegðun. Guð má vita hvernig ég hefði orðið annars.

2. Margir skólafélaga minna úr grunnskóla álitu mig illa gefinn. Hluti ástæðunnar fyrir því að ég fór í MR var til að sanna að svo væri ekki. Það má segja að það hafi tekist, enda þótt ég hafi svo skipt um skóla. En þá var ég sjálfur orðinn sannfærður um að ég ætti mér ekki viðreisnar von.

3. Síðan hef ég orðið mjög metnaðargjarn. Raunar svo metnaðargjarn að helst þyrfti að halda aftur af mér fremur en að hvetja til dáða.

4. Í tíunda bekk fékk ég þá flugu í höfuðið að gerast prestur, vegna þess að ég hafði heyrt að ríkið greiddi fyrir þá bensínreikninginn. Svo fór mér að finnast það siðlaust.

5. Þegar ég var sjö ára missti ég jólasveinatrúna og afa minn á sama degi. Jólasveinninn féll í skuggann. En síðan þá hef ég verið mótfallinn jólasveinum og öðrum hégiljum sem logið er að börnum. Síðan þá hef ég borið meiri virðingu fyrir afa mínum en flestum öðrum og viljað fræðast sem mest um hann. Mér finnst ég aldrei hafa komist að nógu miklu.

Ég klukka Bjössa, Skúla, Brynjar, Silju Hlín og Silju Rós.

Horst Tappe

Hér mun vera rót hinnar stórlega ýktu sögu af þriðja andláti Horst Tapperts. Ég verð að játa að þetta hlægir mig nokkuð. Mig rámar í svipað atvik fyrr á þessu ári. Og sjálfsagt ypptu margir öxlum þegar Van Gogh var myrtur, öllum að óvörum.

En nú hefur Tappert dáið og risið úr gröf sinni þrisvar sinnum og enginn mun trúa því þegar hann deyr hið fjórða sinn, hvort sem hann gerir það endanlega eða tímabundið.

Kristilegir hvað?

Hvernig væri að fólk hætti að blanda trúarbrögðum inn í pólitík? Ég skil ekki hvernig fólki lætur sér detta í hug að kjósa kristilega hitt og þetta flokka (yfirleitt kristilegir íhaldsmenn eða kristilegir demókratar). Ef ég miða við að frumkristni sé hin eina kristni (sem ég geri) þá er ekkert sameiginlegt með þessum flokkum og kristni. Það eina sem nafnið gerir er að auka grunsemdir um fanatík. Í raun ættu flokkarnir að kalla sig fanatíska íhaldsmenn eða fanatíska demókrata (það er fyndið konsept). Sjáum þá hver kysi þá.

Nú þykist ég ekki vita hvort flokksmenn þessara flokka séu raunverulegir fanatíkerar, hvort þeir vilji breyttar áherslur í nafni guðs og endurupptöku grýtinga í kristí krafti, og breyta utanríkisráðuneytinu í krossferðaskrifstofu, eða láta banna smokka og brenna samkynhneigða á báli geistlegs réttlætis. En hvern fjandann vilja þeir að maður haldi, einfeldningur eins og ég, þegar þeir vilja blanda pólitík við trúarbrögð?