Vangaveltur

Ég hef aldrei skilið hvers vegna málabrautir framhaldsskólana eru kallaðar „flugfreyjubrautir“. Mikill er máttur þeirrar flugfreyju sem farið getur með Hómer og Evripídes á frummálinu.
Ég þykist ekki ná til botns í endaleysu þessa Baugsmáls. En hitt þykist ég vita, að hverjir svo sem það verða sem málið springur framan í, þeir verða í vondum málum. Nei, ég gleymdi því eitt andartak að ég bý á Íslandi, þar sem Davíð Oddssyni nægir að prumpa til að draga athyglina frá því sem meira máli skiptir.
Samkvæmt Closing of the Western Mind ætlaði Jesús sér aðeins að betrumbæta lagabókstaf gyðinga, fremur en að kollvarpa honum. Því var kristin kirkja áreiðanlega stofnuð í fullkominni óþökk þess upprisna.

Paul McCartney látinn

Paul McCartney er víst dáinn, samkvæmt sumum, og lookalike fenginn í staðinn. Í fyrstu fannst mér þetta fyndið, en svo sá ég þessa sjúku síðu, og fékk beint í æð hversu klikkað fólk getur verið. Þar er dagbók, lögð einhverjum í munn sem ég kann ekki að skýra hver er, en þar má meðal annars finna fremur ógeðfellda lýsingu á líki McCartneys.
Eftir nánari eftirgrennslan kom í ljós að þessi orðrómur hefur verið í gangi síðan 1969. Fólk er mjög gjarnt á að lesa allt úr öllu, finna tákn og vísbendingar, og þegar viljinn er til staðar er ekkert einfaldara en að sjá skrattann í hverju horni. Ljósmyndasamanburðurinn í fyrsta tengli er öllu áhugaverðari (og fyndnari) en hvað söguna úr öðrum tengli varðar, þá hvorki veit ég né vil vita hvaðan hún kemur.