Efst á Baugi

Baugsfeðgar létu einkaspæjara fylgjast með ferðum Jóns Geralds og konu hans, segir herra Sullenberger sjálfur. Í hvaða tilgangi sagði hann ekki. Einnig hefur komið fram að Jónína lá undir Styrmi og gat með honum lögfræðiaðstoð Jóns Steinars, þrátt fyrir að óvinveittir Sjálfstæðismenn hafi í andstöðu sinni hangið yfir henni eins og ufsagrýlur andskotans, enda þótt þeir hvergi kæmu nærri samsærinu. Samsærinu um hvað veit enginn. En ljóst má vera, ef eigi var áður, að Baugsmál þetta er hinn mesti sirkus.

Snilld auglýsinga

Merkileg þessi dagblaðaauglýsing frá Betra baki. Þar eru myndir af ýmsum gerðum rúma og svo mynd af Siggu Beinteins, með nafni hennar letruðu undir. En það er hvergi vitnað í æðislega reynslu Siggu af rúmunum, eða hinum kyngimögnuðu Spring Air Never Turn dýnum. Það er bara myndin og nafnið.
Þetta er náttúrlega bara snilld, ósnortið land í hinum víðáttumikla heimi auglýsinga. Þess verður ekki lengi að bíða uns auglýstir verða risajeppar við hliðina á mynd af Helgu Möller í leðurjakka, eins og ódýr og óviðeigandi gæðastimpill. Eða auglýsingar frá Office One þar sem Hemmi Gunn sést í námunda við einstaklega fínan heftara.
Málið er nefnilega einfalt: Þeir sem ekki kaupa eins rúm, jeppa og heftara og Sigga Beinteins, Helga Möller og Hemmi Gunn kannski eiga, þeir eru ekki töff. Því hver hefur efni á að taka áhættuna á að þessi glæsimenni eigi ekki slíka dýrgripi?

Málfarsráð dagsins

Hvað er athugavert við þessa setningu: „Hvernig talarðu drengur? Ég hef heyrt ungabörn tala réttari íslensku!“

Ef gagnrýna á málfar annarra, skal aðgæta að stíga ekki á bananahýði hrokans, og misfarast málfarslega í sjálfri gagnrýninni. Sum lýsingarorð eru merkingar sinnar vegna aðeins brúkleg í einu stigi, enda þótt þau séu málauðginnar vegna einnig til í hinum tveimur. Þannig er rökvillan sú sama þegar sagt er að eitthvað sé réttara en annað og þegar Napóleon í Dýrabæ Orwells lét bæta við lagagreinina „öll dýr eru jöfn“ að sum dýr væru þó jafnari en önnur. Því það sem er rétt er annað hvort rétt eða rangt, líkt og það sem er jafnt er alltaf jafn jafnt, enda væru allar viðbætur aðeins til að skapa mun. Og þar sem er munur er enginn jöfnuður. Og þar sem er sannleikur er ekkert „sannara“, og ennfremur er ekkert „réttara“ að finna meðal atriða sem öll eru rétt.

Í þessa gryfju falla kennarar oft þegar þeir semja krossapróf. Þá eru nemendur oftar en ekki beðnir að merkja við réttasta svarmöguleikann af mörgum réttum. Það er órökrétt bón og nær væri að biðja nemendur að merkja við ítarlegasta svarmöguleikann. Þannig væri líka betra að segja: Ég hef heyrt ungabörn tala betri íslensku, enda getur málfar verið misgott, og skiptist þá oft á rétt eða rangt. En ekkert málfar er réttara en annað frekar en sumir eru jafnari en aðrir.

Allt með kyrrum kjörum

Það var svo stillt úti í henni Reykjavík að mér fannst ég heyra nið aldanna, í hverri liðinni hreyfingu hreyfingarlausra trjánna, í hverjum andardrætti golu sem ekki var til staðar, í hverju fölnuðu blaði birkirunnsins, í hverju horfnu spori norðurljósanna, í hverju bliki löngu dáinnar stjörnu, í glitrandi fótsporunum sem eitt sinn prýddu frostbitna stéttina, líkt og minning um löngu dáinn mann, og í köldu glotti tunglsins, sem ekki lét sjá sig.
Haustið er fagur árstími og ber minning vetursins í skauti sér. Svona til að minna á það sem koma skal. Miklar og lofaðar séu stemmningar haustsins.