Þá stórt er spurt

Birgir Már vill nota kné í stað hné og spyr hinn arma mig álits. Kné er honum velkomið að nota og þar að auki er það svolítið retró, og allir vita að retró er töff. Hin orðskrípin sem hann telur upp eru hins vegar hinn argasti hryllingur og ræð ég honum eindregið frá því að leggja sér þau til munns, svo ég yfirfæri merkinguna.

Spurning dagsins er: Hversu slæm er sjón þess manns sem sér ekki mun á Bill Paxton og Bill Pullman? Svar: Eins slæm og sjón þess sem sér ekki muninn á mér og öskurapanum í draslhljómsveitinni sem ég nefni ekki á nafn.

Minning

Þegar ég var í áttunda bekk var okkur gefið frjálst ritgerðarefni fyrir einhvern enskutímann. Ég man ekki hvað ég skrifaði um, sjálfsagt var það algjör snilld, en einn bekkjarfélaga minna skrifaði um þá glæpsamlega lélegu hljómsveit Limp Bizkit, líklegast til að ganga í augun á bekkjartöffurunum, því hann þótti sjálfur ekkert sérlega töff (það þótti ég raunar ekki heldur, en allt grjótkast töffaranna kom úr glerhúsi), og þar að auki var það kannski ekki besta leiðin til að ganga í augun á töffurunum að skila ritgerðinni!
En þegar við fengum ritgerðirnar til baka hafði kennarinn gefið þessum bekkjarfélaga mínum vitlaust fyrir að skrifa Bizkit. Hann veifaði hendinni til kennarans og tilkynnti henni í heyranda hljóði að svona skrifaði hljómsveitin nafn sitt. Þá mælti kennarinn þau fleygu orð: „Það verður ekkert réttara þótt einhver hljómsveit geri stafsetningarvillur!“ Og þar við sat.

Af ómarktækum skoðanakönnunum?

Hvers vegna kemur það mér ekki á óvart að Mogginn birtir skoðanakönnun Gallup þess efnis, að fylgi Sjálfstæðisflokksins hafi aukist á kostnað allra annarra, án þess að tiltaka svarhlutfall. Ég fæ ekki ímyndað mér annað en svarhlutfall sé fyrir neðan lágmark, fyrst þeir birta það ekki.

Fréttablaðið ákveður að birta könnunina alls ekki. Það skýrist af því að aðferðafræði Fréttablaðsins við skoðanakannanir eru óvísindalegar, eins og þeir státuðu sig eitt sinn af, og gera þeir þá væntanlega engan mun á Sjálfstæðisflokknum með 40% fylgi í 2000 manna könnun með 73% svarhlutfalli, og á Sjálfstæðisflokknum með 40% fylgi í 20 manna könnun með 50% svarhlutfalli. Ég hef séð könnun eftir könnun sem sýna að Sjálfstæðisflokkurinn hafi bætt við sig fylgi og engin þeirra hefur verið marktæk hingað til, þar sem þátttaka hefur verið of lítil. Í einni könnun var sjálft úrtakið meira að segja of lítið. Þeir hjá Fréttablaðinu því kannski sannfærðir um yfirburði Sjálfstæðisflokksins, en það verð ég ekki fyrr en ég sé allar tölur.