Gullöld íslenskra bókmennta

Er það bara ég eða eru íslenskar bókmenntir eftir 1950 einfaldlega ókræsilegri en þær frá fyrri hluta sömu aldar? Það er sem snilldin hafi dáið og Einar Kárason komið í staðinn. Snilldin hefur raunar endurfæðst í Andra Snæ Magnasyni, en hann verður líklegast seint talinn til 20. aldarskálda. Aukinheldur er því miður svo mikið drasl í umferð að hin staka snilld drekkist og gleymist í hrúgu eftir hrúgu af bókum og bleðlum sjálfumglaðra exhibitionista um alls ekkert og ekki neitt. Við þá er Einar Kára eins og Þórbergur í samanburði. Í ljósi þess má segja að ný gullöld íslenskra bókmennta hafi þegar verið kæfð við fæðingu.

Ljóð dagsins er „Grafskrift svefnpurkunnar“ (lesist: Grafskrift Arngríms):

Hér hvíli ég, hinn morgunsvæfi maður.
Að marki var mér fótaferðin ströng.
Ég fór að hátta – fékk hér loksins glaður
þá fyrstu nótt sem mér var nógu löng.

-Steingrímur Thorsteinsson.

Bókalistinn uppfærður

Bókalistinn hefur verið uppfærður, samkvæmt ósk Þórunnar nokkurrar, svo allir auðmenn, hjálparstofnanir og aðrir prangarar mega fara yfir listann og miskunna sig yfir mig og senda mér bók eða tíu.

Bækur sem ég hef þegar keypt eru ennþá á listanum, auðkenndar með yfirstrikun, svo ég verði ekki vændur um að vilja ekki lesa hinn eða þennan höfundinn, af því einu að þeir finnist hvergi á listanum.

Spurt er

Hvað heitir aftur fyrirbærið þegar köngurvofur spinna þræði sína um þver og endilöng tún, og á að vera fyrir hörðum vetri? Mig minnir að það hafi endað á voð, en er ekki alveg viss. Ég finn þetta hvergi, en kunni þó orðið þegar ég var lítill. Það svekkir mig mjög að muna þetta ekki og kref lesendur mína svara.

Röntgen

Ég fór í röntgenmyndatöku í Domus Medica áðan að láta mynda á mér ennisholurnar. Ég verð að segja að það setur alltaf að mér jafn mikinn óhug þegar ég þarf í röntgen. Líklegast eru það allar þessar myndir af hauskúpum og geislunarmerkjum sem mönnum finnst nauðsynlegt að plastera alstaðar innan hálfskílómeters radíuss frá tækjunum. Og ef til vill ekki síður vegna þess að þegar ég er sestur niður á öfugum enda einhverrar risavaxinnar dómsdagsvélar, með blýþynnur alstaðar utan á mér nema þar sem hlaupinu er beint, varar hjúkkan mig við að hreyfa mig nokkuð og hleypur svo sjálf inn í kjarnorkubyrgi, þaðan sem hún getur skotið alfabetagamma hvert á land sem henni sýnist án þess að skaðast sjálf. Það skal ekki undra að þriðji hver Íslendingur fái krabbamein.

Og hvað kostar að leggja sig svona í lífshættu? Tvöþúsund kall. Ekki amalegt verð það. Svo eru menn að stökkva út úr flugvélum fyrir fleiri tugi þúsunda.

Fróðleiksmoli dagsins: Röntgengeislar heita X-Ray á ensku, í höfuðið á uppfindingarmanninum, Malkólmi X. Lengi voru hins vegar uppi sögusagnir um, að náungi, að nafni Röntgen, hefði fundið upp þennan geisla, og er þaðan komið nafn geislans á íslenzku. Þetta hefir hins vegar sýnt sig, að er uppdiktun, og hefir Mannkynssögustifti nú leiðrétt þann leiða misforståelse.