Hugleiðingar

Enska þykir mér ekki fallegt tungumál eins og hún er töluð í dag. Alvöru ensku má finna í verkum manna eins og Edgars Allans Poe.
Að sama skapi þykir mér íslenska hafa átt sinn fífil fegurri.
En það þýðir lítið að sýta breytingarnar. Það er fyrst og fremst hvers og eins að reyna að breyta því sem hann vill fá breytt.
Af þeim sökum hata ég sinnuleysi og ber minni virðingu fyrir sinnulausum en öðrum. Það er vegna sinnuleysis sem erfitt er að berjast fyrir málefnum.
Þá á ég ekki endilega við íhaldssama málstefnu. Raunar á ég við allt annað en íhaldssama málstefnu. Hvað um allt það sem illa er gert og verður að stöðva?
Það verður aldrei stöðvað. Til þess er mótmælaþunginn of lítill. Eiginlega er varla hægt að tala um neinn þunga í því sambandi.
Öll málefnavinna verður alltaf unnin í litlum hópum hugsjónamanna, sem allir vita að baráttan var töpuð áður en hún hófst.
Valdið til breytinga verður alltaf hinna fáu en aldrei allra. Lýðræði er að því leyti ekki til. Eina leiðin til breytinga er að skipta út embættismönnum.
En þjóðin er sinnulaus. Þess vegna fær þjóðin aldrei sína fulltrúa til ákvarðanatöku.
Hvaða gagn er líka í því að skipta út fólki í efstu sæti ákvarðanatöku? Hinir nýju eru alveg jafn fáir og munu eftir sem áður taka sömu ákvarðanir.
Slíkt tilgangsleysi hugsjóna elur þær af mönnum. Ef það er ekki hægt að berjast þá er engin ástæða til að berjast. Ef það er engin ástæða til að berjast þá er engin ástæða fyrir hugsjónum. Ef það er engin ástæða fyrir hugsjónum þá er engin ástæðu til annars en að sætta sig við hlutina eins og þeir eru.
Þannig elur sinnuleysi af sér sinnuleysi og sinnuleysi á ofan.

Ofvitinn

Mér finnst leiðinlegt í öllum umræðum um Ofvitann eftir meistara Þórberg hvernig menn þrástagast á því hve fyndin hún sé. Auðvitað er hún drepfyndin, en hún er svo miklu meira en það. Það vill oft gleymast að þótt bókin sé færð í húmorsbúning leið Þórbergi alls ekki vel á þessum tíma. Hann var sárfátækur, með blóðuga góma af vanhirðu, líkamlega illa á sig kominn af vannæringu, ómenntaður – þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir – ástfanginn án vonar og undir það síðasta höfðu vinir hans yfirgefið hann. Þórbergur þjáðist af þunglyndi á háu stigi, reyndi að fyrirfara sér og, eftir að hafa hætt við það, lagðist hann í rekkju og ætlaði aldrei aftur á fætur. Þar lá hann heila viku án næringar og samskipta áður en Erlendur í Unuhúsi heimsótti hann og bjargaði lífi hans.
Ofvitinn er ekki fyndinn að þessu leyti. Í það minnsta hló ég ekki. Þetta er sönn baráttusaga ungs manns á öndverðri tuttugustu öldinni, sem þrátt fyrir háleitar hugsjónir þurfti að dragnast áfram gegnum drullupoll lífsins. Þetta er átakanleg frásögn með farsælan endi. Og mér finnst að það eigi að virða. Ofvitann á ekki að leggja frá sér fulllesinn með bros á vör. Honum á að ljúka með hugleiðslu um hrakfarir mannanna og misskiptum gæðum heimsins. Menn skulu vita, að eins hefði getað farið fyrir þeim, hefðu þeir ekki fæðst með silfurskeið í munni. Menn skulu umfram allt vita, að fátækt er ekkert grín, og að betur væri að gert ef reynt væri að sporna við því, að menn læpu dauðann úr skelinni hér á götum úti.
Eða það er nú einu sinni mín leiðinlega, fanatíska skoðun. Kannski ekki við öðru að búast af svo leiðinlegum fanatíker sem ég er.