Ísland er ekki land þitt

Til að manninum sé unnt að skilja heiminn þarf hann að einfalda hann. Til þess notar hann svokallaðar staðalmyndir, en jafnframt því að vera manninum ómissandi hjálpargagn ala þær einnig á fordómum. Það gefur auga leið að þeim mun smærri sem heimsmynd manna er, þeim mun meiri fordóma hafa þeir.

Hugtakið land er ein þessara staðalmynda. Öll lönd eiga sér sömu uppsprettu, úr heitum kvikustrókum iðra jarðarinnar, og öll eru þau eldri en maðurinn. En þegar maðurinn kom til sögunnar einfaldaði hann heimsmynd sína með því að aðgreina löndin eftir staðsetningu. Með tímanum skipti maðurinn sér í þjóðir eftir búsetu, og svo fór að lokum, að einhver þóttist eiga landið.

Líkt og löndin eiga allir menn sér sama uppruna. Um það leyti sem þróunin mótaði hann voru öll lönd eitt. Svo flutu þau eins og eftir geðþótta hvert í sína áttina, og aðgreindu mennina, með fyrrgreindum afleiðingum: Hjá þeim urðu staðalmyndirnar kveikjan að heimóttarskap.

Ein nýjasta staðalmyndin er hugtakið Tælendingur, sem tekur yfir allar þjóðir Asíuheimsálfu. Þykja þeir og með afbrigðum óiðnir og ófrýnilegir og hin mesta plága og megi þeir hvergi þrífast. Þeim var enda nær, að fæðast ekki annarsstaðar. Og á Íslandi mega þeir als ekki vera.

En hver getur bannað þeim það? Hver á landið? Er það tvítugur pitsusendill í Breiðholtinu? Á hann landið, vegna þess að einhver Noregskonungur sagðist eiga það um áttahundruð árum áður en hann fæddist? Eða á hann það, vegna þess, að hann sjálfur segist eiga það?

Það er ekki hægt að eiga land frekar en það er hægt að eiga ást. Lönd og þjóðir eru staðalmyndir, til einföldunar okkar flókna heimi. Við eigum ekki lönd vegna þess að Homo sapiens X lamdi Homo sapiens Y í hausinn með lurki og sagði „úgg“. Við eigum landið aðeins í fáfræði okkar og heimóttarskap og erum þess vegna uppfull af fordómum. Í stærri heimi eigum við ekkert, en fáum svo miklu meira í staðinn. Og þó við í einfeldni okkar köllum okkur Íslendinga, megum við ekki gleyma því, að öll tilheyrum við sömu upprunalegu Heimsþjóðinni.