H-gír

Ég minnist þess að í gömlum Simpsonþætti þurfti Hómer að kaupa sér nýjan bíl. Í einu atriðinu sést hann hálftroðinn inn í ískyggilega lítinn bíl á rússneskri bílasölu, hjá Sergei nokkrum, að mig minnir. Sem bílasalinn ýtir bílnum úr hlaði hrópar hann á eftir Hómer að setja bílinn í H-gír. Ástæða þess að ég rifja þetta upp er sú að stafurinn H í rússnesku táknar hljóðið N. H-gír gæti því verið hlutlaus gír. Þetta gæti líka verið tilviljun. Það er raunar líklegra að þetta sé tilviljun.

Í morgun gerði stúlka nokkur aðhróp að mér fyrir að vera orðinn eldri borgari. „Djöfull ertu ógeðslega gamall,“ sagði hún, „ég er átján, skilurðu!“ Það var góður samanburður. Annars er þessi tuttugastiogfyrsti árlegi fæðingardagur minn senn runninn til viðar. Þakka öllum sem mundu eftir því og sömuleiðis þeim sem mundu ekki eftir því og slá hausnum í vegginn yfir gleymsku sinni (nei, nú lýg ég að sjálfum mér!). Sjálfur man ég aldrei eftir afmælisdögum og öll hátíðahöld og miðjuathyglisfókuseringar afmælisbarnsins hvers konar sem þeim fylgir þykir mér í hæsta máta þarfleysa. Kannski skemmtileg þarfleysa en þarfleysa engu að síður. Annars nenni ég lítið að velta mér upp úr afmælum. Ekki flyt ég skálræður um hve lífið sé stutt og dauðinn langur o.s.frv. þótt ég sé orðinn svona djöfull aldraður.

Nígeríufundurinn

Ég á gamalt hnattlíkan sem sýnir Nígeríu nákvæmlega eins í laginu eins og sjálft meginland Afríku. Það finnst mér merkilegt. Ennfremur finnst mér merkilegt að líkanið sýnir borg í Nígeríu sem heitir Garún, líkt og unnusta djáknans.

Sé málið hinsvegar aðgætt sést að hvorki er Nígería í laginu eins og Afríka né er þar borg sem heitir Garún. Hins vegar er landsvæði sunnan við Kamerún sem heitir Gabon.

Nú er hnattlíkanið mitt þýskt og komið til ára sinna. Útskýrir það stafsetningar- og landamæramuninn?

Fyrst ég minntist annars á djáknann góða á Myrká er rétt að geta þess að fyrir einum tólf árum eða svo var sýnd teiknimynd í Sjónvarpinu eftir þjóðsögunni. Í myndinni var ekkert tal en tónlistin var hins vegar sérdeilis draugaleg. Þá freista ég þess að spyrja lesendur hvort þeir muni eftir téðri teiknimynd, hvort þeir viti hvers vegna hún var ekki talsett og hverjir gerðu myndina og af hvaða tilefni.

Ekki þykir mér líklegt að ég fái svar við neinni þessara spurninga.

Á Gljúfrasteini

Fór á Gljúfrastein áðan. Ég hefði verið til í að dvelja lengur en ég gerði, ekki hefði til dæmis verið amalegt að fá sér sæti í vinnustofu skáldsins, kveikja sér upp í pípu og blaða í öldnum bókunum. Sniðugt líka að hafa leiðsöguna gegnum Æpod frekar en láta misskemmtilega leiðsögumenn stalkera gesti. Og húsið er fallegt allt, umhverfið sömuleiðis og útsýnið. Þarna vildi ég búa, hefði ég nokkur tök á því. Eins og mér nú annars dytti ekki einu sinni í hug að vilja búa þarna nálægt.