Hræsnarar og skítseiði

Fari þessi þjóðkirkja andskotans til vilji hún ekki starfa innan ramma íslenskra laga. Það að Halldór Ásgrímsson vilji veita kirkjunni sjálfsákvörðunarrétt umfram önnur félagasamtök og fyrirtæki um að framfylgja grundvallarmannréttindum ómerkir allt mannréttindahjal hans og alls hans flokks, ef hann og hans djöfulsins skítaflokkur höfðu þá ekki fyrir löngu dæmt sjálfa sig sem skíthæla og stríðsæsingarmenn. Fari þessi Framsóknarflokkur sömuleiðis beinustu leið til andskotans. Hefur enginn vott af siðferðisvitund í þessu þjóðfélagi?

Hroki litla Íslendingsins

Ég minnist þess einn daginn, þegar ég var fjögurra til fimm ára og bjó á Ítalíu, að ég lenti í rifrildi við vin minn jafngamlan. Sá hét Simone Bulla og hafði áreiðanlega búið lengur en ég á Ítalíu. Heiður minn, að því er ég hef sjálfsagt talið, leyfði mér samt ekki að lúta í lægra haldi fyrir honum þegar kom að kunnáttu okkar í að telja upp að tíu á ítölsku. Þar að auki hafði ég aldrei rangt fyrir mér á þessum aldri, og þuldi upp aftur og aftur: Uno, due, tre, quattro, cinque, sette, sei, otto, nove, (ég kunni ekki að segja tíu) í von um að honum segðist. Þetta sætti hann sig alls ekki við heldur reyndi að koma mér í skilning um að sei kæmi á undan sette. Fyrir mér var þetta eins og að segja að sjö kæmi á undan sex. Fyrir honum var það áreiðanlega svipað. Og enda þótt faðir minn kvæði upp þann úrskurð að ítalski vinur minn hefði rétt fyrir sér, sannfærðist ég aldrei fyllilega um það.

Núorðið hef ég sem betur fer lært að trúa heldur því sem fólk segir um sín eigin móðurmál og hafna minni eigin hugmynd um hvernig þau eru. Það er varla hægt að ímynda sér neitt meira óþolandi en útlendan tungumálabesserwisser.

Í dag er ég ekki betri en svo í ítölskunni að ég þurfti að fletta þessum tölum upp á netinu. Já, fíflarnir voru eitt sinn fegurri, þótt þeir hafi nú raunar alltaf verið ljótir.