Óþolandi

Manni hefnist fyrir að fara fyrr að sofa en ætlað var. Hefði ég farið í háttinn stundvíslega klukkan tíu væri ég álíka vakandi og lík. Þess í stað er ég vakandi í eirðarleysi, óhamingjusamur og dauðþreyttur. Já, manni hefnist.

Ég var sofnaður kortér í tíu, kortéri á undan áætlun. Fimm mínútum síðar vakna ég við háværar samræður þriggja manna fyrir utan húsið mitt. Hafi það ekki eyðilagt allt þá hringir síminn sex mínútum síðar. Ég hef ekki getað sofnað síðan, þrátt fyrir lítinn svefn undanfarið. Ég veit hreinlega ekki hvað ég á af mér að gera. Gráta kannski?

Síðustu dagar mannkyns runnir upp

Jesús almáttugur, hans blessaða blóð, vor heilagi hái faðir!!! Nú þegar tavaríssj Kári Páll Óskarsson hefir lært að setja voðamyndir af þessu tagi inn á síðu sína, og farinn að ræða um afturhaldsstofnanir miðalda, þá er ekki langt í að einherjar og óvættir eldi grátt silfur á götum úti. Ég er uggandi um framtíðina. Hvað ef hann tekur upp á að fjalla um æfintýrið fransósíska um snákaprinsessuna?!

Draumráðningar og Freud

Andri bróðir sagði mér áðan að bekkjarbróður sinn hefði einhvern tíma dreymt að hann væri að borða loðið bjúga. Sá hefur að sögn bróður míns ekki viljað borða bjúgu síðan. Hann Freud vinur minn hefði ekki verið lengi að ráða í þetta. En sjálfur læt ég staðar numið hér.

Óðum

Ég svaf tvo tíma í nótt. Í gærnótt svaf ég fjóra tíma og annað eins nóttina þar á undan. Samt mætti ég á réttum tíma í vinnuna og í skólann klukkan átta í morgun, enda þótt ég ætti ekki að mæta fyrr en kortér í tíu. Ég hef sumsé sofið samanlagt jafnlengi yfir eina helgi og ég kysi að sofa á einni nóttu undir venjulegum kringumstæðum. Og ég er uppþembdur af kaffi. Heilsa mín til anda og líkama sætir því stórsókn beggja vegna vígvallarins.

Óðum snappa ég. Óðum.