Andlegi dauðinn hefst

Það hafa alltaf verið uppi deilur á öllum tímum. Þegar ég les um liðna daga hlæ ég að fíflunum sem aðhylltust þessa stefnu en ekki hina, og það hlakkar í mér að vita að hugsjónum þeirra var fullkomlega slátrað á kjötborði framkvæmdanna, og það sé ekkert sem þeir geti gert í því með því þeir eru dauðir, líkt og sjálf stefna þeirra.

Að sama skapi gremst mér ýmislegt sem komst til framkvæmda og hefði betur verið sleppt. Undanfarið hefur mér fundist fleira komast verri veginn en þann betri, þ.e. til framkvæmda fremur en helvítis, meðan andlegur kroppur minn liggur iðralaus óbættur í valnum og hrafnar illvirkjanna kroppa úr mér það sem eftir lifir af hugsjónum mínum líkt og augun úr ná. Við þessu er ekkert að gera.

Áreiðanlega hlæja skálkar fortíðarinnar í gröfinni, vitandi að málagjöld hlaut ég makleg fyrir að gleðjast yfir óförum þeirra. Við hittumst í helvíti hugsjónanna, og það er öðrum helvítum verra. Sinnuleysingjarnir hafa sjálfa sig dæmt fyrir að láta allt yfir sig ganga. Við hin verðum gráhærð um tvítugt. Kannski er betra að hugsa ekki sjálfstætt.