Mín bestu kaup á árinu

Ég datt svei mér þá í lukkupottinn hjá Braga bóksala rétt áðan. Þangað fór ég til að greiða skuldir mínar við bóksalann og spurði í leiðinni hvort hann ætti nokkuð eftir Jóhann Gunnar Sigurðsson. Jú, viti menn, hann átti bæði frumútgáfu frá 1909 og seinni útgáfu frá því um 1940, með greinum um skáldið og öllu því öðru sem ekki komst í frumútgáfuna. Frumútgáfan kostaði minna, svo ég byrjaði að fletta henni og hvað finn ég á saurblaðinu? Jú, eiginhandaráritun, tvær raunar. Efri: „Þorbergur Þórðarson“ (búið að strika yfir hana); neðri: „Ragnar Þórarinsson, keypt 2-Y-1912 í Reykjavík“.

Tvennt sem ber að athuga:
1. Þórbergur Þórðarson breytti ekki stafsetningu á nafninu sínu endanlega fyrr en eftir útkomu Hvítra hrafna, en áður flakkaði hann nokkuð á milli Þór- og Þorbergs. Þorbergur er skírnarnafn hans.
2. Ef marka má Ofvitann seldi Þórbergur allar bækur sínar árið 1912. Hann var atvinnulaus og stórskuldugur, og til þess að lifa af neyddist hann til að selja þær allar, þar á meðal dýrmætustu eign sína, Málfræði Finns Jónssonar, og hugsanlega þessa.

Við Bragi fórum í örlitla rithandargreiningu og bárum saman undirskriftina við þá sem finna mátti á forsíðu frumútgáfu Bréfs til Láru. Það gat ekki annað staðist en þessi bók hefði verið í eigu Þórbergs.

Hvað borgaði ég svo fyrir þetta? Níuhundruð krónur, meðþví Bragi hafði ekki gert sér grein fyrir þessu þegar hann verðmerkti bókina. Það er ekki amalegt. Og fyrir utan allt þetta, þá eru níuhundruð krónur ekki mikill aur til að greiða fyrir kveðskap Jóhanns Gunnars Sigurðssonar. Allt í allt kostakaup. Það borgar sig greinilega að yfirgefa stundum húsið.

Eftirmiðnættiseip

Jólakettir eru meiri ansvítans kvikindin. Þá er ég meira fyrir páskaketti, því það fer svo lítið fyrir þeim. Hafið þið aldrei heyrt um páskaketti? Hélt ekki, þar sést best hversu lítið fer fyrir þeim.

Ég keypti mér jólaglögg fyrr í kvöld, sauð það og drakk um hálfeittleytið. Held það sé ekki í lagi með mig. Hví er ég svo hömlulaus í fýsn minni í jólaglögg? Hví?

Póst skribbtúmm: Mæli ekki með lestri á sálfræðitengdu efni eftir miðnætti. Það fokkar upp allri heilastarfsemi. Djöfull er hvers konar póstskribbtúmm annars tilgerðarlegt og asnalegt. Einasta raunverulega póstskribbtúmmið er þegar maður er hættur að skrifa, plús það er engin þörf á að setja einhverja formála á málalengingar. Til þess fann snillingurinn upp greinaskil.

Póst póst skribbtúm: Ek er eigi hálfnaðr með sálfræðitengt efni þat, er ek þarf at lesa. Fyrir því er best ég bæti engu hér aftan- eða framanvið að svo stöddu, fyrst ég er farinn að láta eins og hálfviti á sjálfu internetinu, þeirri mestri völundarsmíð ragnanna.