Flóð

Þetta er einhver sú furðulegasta fréttamynd sem ég hef séð. Fyrst hélt ég að gæsin væri kóbraslanga og hugði vin minn Othman Awang vera í talsverðri klípu. Kötturinn dregur svo upp heildarmynd angistar og volæðis, hið raunverulega fórnarlamb hinna malasísku flóða. Ef ég gæti myndi ég tengja á fréttina, en Morgunblaðið hefur þann háttinn á að opinbera aldrei tengla á þær fréttir sem ég vil tengja á.

Ástæða þess að ég er töff en ekki þið

Í gær fórum við faðir minn í Herrahúsið og keyptum á mig smókingskyrtu og slaufu, svo smókinginn minn endi ekki æfidaga sína mölétinn inni í skáp (enda þótt þar sé enginn mölur). Í gær var ég svo að bisa við að læra slaufuhnútinn. Gafst upp öskrandi og emjandi af bræði. Svo fékk ég hugljómun áðan og þetta er afraksturinn. Ójá, sjáið þessa fallega hnýttu slaufu. Þið megið hylla mig sem guð ykkar núna.