Jólatónleikar

Ég lét loksins verða af því og fór á jólatónleika í gærkvöldi. Tónleikarnir voru haldnir í Víðistaðakirkju og þar sungu MS-kórinn og unglingakór kirkjunnar. Báðir kórar stóðu sig frábærlega, vissulega þekki ég ýmsa og margvíslega úr MS-kórnum og þarf því að þykja hann betri (nei, það er ekki hægt að bera svona saman), en best fannst mér þegar þeir sungu saman lagið Jól eftir Jórunni Viðar, ömmu Einars Steins, sem er meira skyld mér en ég honum (merkileg þessi ættfræði), við undirleik Moniku Abendroth hörpusnillings og frábærs þverflautuleikara, sem ég skammast mín fyrir að muna ekki nafnið á.

Það er því ekki öll von úti fyrir Trölla, fyrst honum tókst að komast í jólaskapið í gær. Virkilega fallegir tónleikar og góð stemning. Með þökk til þeirra kórfélaga sem lesa, sérstaklega þó til hennar sem lét mig vita af tónleikunum.

Uppfært:
Það var líka gaman að fá að klappa í kirkjunni. Hélt það væri alveg bannað.

2 thoughts on “Jólatónleikar”

  1. Takk fyrir að koma og hlusta kæri Arngrímur, og takk fyrir að segja að við værum góður kór 🙂

Lokað er á athugasemdir.