Party jokes – a wise and witty guide

1. Bíddu þar til allir eru orðnir temmilega fullir.
2. Hættu skyndilega að höndla bjórinn þinn.
3. Spurðu gestgjafann hvort hann eigi plastfilmu til að vefja um bjórinn þinn (hann segir nei).
4. Spurðu gestgjafann hvort það sé þá í lagi að þú vefjir hálfdrukkinn bjór inn í Vínbúðarplastpoka og setjir inn í ísskáp. Hann er fullur svo hann segir já.
5. Lestu um afleiðingarnar á blogginu hans að helgi liðinni.

Frægur heilsar

Eins og allir Íslendingar vita er hvert og eitt okkar hið eina rétta autoritet á það hvað telst frægu fólki sæmandi. Oft lætur fólk hafa ótrúlegustu hluti eftir sér. Eins og ein manneskja sagði eitt sinn um tvær mismunandi manneskjur með stuttu millibili:

1. „Þá gekk Xur upp að mér og sagði: Hæ, ég heiti Xur. Þúst, kommon, eins og það viti ekki allir að þú ert Xur Xursson! Þvílíkur hroki!“

2. „Xura gekk upp að mér og sagði: Hæ, ég heiti Xura. Vá, spáðu í þetta, hvað hún er nú alþýðleg og alminleg hún Xura Xursdóttir! Bara heilsar manni eins og eðlilegt fólk!“

En það vissu náttúrlega allir fyrir að það að heilsa fólki eru forréttindi hinna óþekktu. Fína og fræga fólkið er ekki eðlilegt og þarf því ekki að heilsa einum né neinum. Það væri hroki að vinka pöpulnum, það væri tilgerð af þeim að þykjast eðlilegt. Eða það virðist á stundum ekki fara fjarri almenningsálitinu.

Illar draumfarir

Ég svaf illa í nótt og lítið. Dreymdi martröð sem fólst í að ég missti tunguna eftir að vinkona mín hafði stungið pinna gegnum neðri vörina á mér, óvíst hvort hún yxi aftur. Það er ástæða fyrir því að mér er meinilla við svona andlitsjárn, ef þið hélduð að þetta væru bara fordómar hjá mér. Fyrir utan auðvitað hvað þau eru oft mikið lýti á annars myndarlegu fólki.

Tilvitnun dagsins

Er úr Sumarljósi og svo kemur nóttin, eftir Jón Kalman Stefánsson.

„ … en við segjum stundum við gamla manninn: láttu nú hendurnar standa fram úr ermum, eða: þér eru aldeilis mislagðar hendur í dag! Þetta finnst okkur fyndið og honum stundum líka, en þó ekki alltaf.“

Skömmu áður í bókinni kemur fram að maðurinn sem um ræðir missti hægri höndina í heyblásara.
Ég er annars hálfnaður með bókina, þykist geta mælt með henni við suma, þó ekki aðra. Eflaust munu ekki allir kunna að meta stílinn.
Það er oft einkenni á nýlegri bókum að þær detta niður í miðjunni og missa eilítið dampinn. Besti hluti Sumarljóss finnst mér einmitt vera sá fyrsti af þeim þremur og hálfa sem ég hef lesið. Vona að hún nái sér aftur upp. Eiginlega hlýtur hún að gera það, það er úr svo miklu að moða.