Febrúar í rigningu

Mér varð nokkuð ljóst í nótt. Það var ekki skemmtileg uppgötvun. Ekki meira um það.

Skyndilega stefnir allt í að ég hafi þrjá valkosti um sumarstarf, þar með talið draumastarfið. Það finnst mér ekki gott, ég vil hafa hlutina sem einfaldasta, fæ alltaf móral þegar ég hef sótt um starf og þarf svo að hafna því. Semsagt lúxusvandamál dauðans. Í Simpsonþætti nokkrum var haft orð á því að Japanir hefðu sama orð yfir vandamál og tækifæri. Það hef ég líka, bara í öfugri merkingu við það sem þar var átt við.

Þótt hugurinn stefni eitt stefnir dagskráin annað. Verkefnabunkanum er ekkert heilagt. Það þarf að lumbra á honum áður hann verður of valdamikill. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Eins og ég nú annars er akademískt vanstilltur þessa dagana. Það er greinilegt að reynslan hefur ekkert kennt mér.

Skrýtið ef febrúar fer allur í rigningu. Mér hefur alltaf þótt hann allra mánaða þurrastur og kaldastur, allra mánaða verstur raunar líka, og í febrúar umfram aðra mánuði hef ég jafnan verið hvað iðjusamastur. Sjáum hvort nokkur breyting verður á þessu öllu saman. Kannski er minnið bara eitthvað að klikka.