As Time Goes By

Hef verið að hlusta þónokkuð á „As Time Goes By“ með Dooley Wilson (hann spilaði raunar ekki sjálfur á píanóið, heldur Elliot Carpenter, sjálfur var hann trommuleikari). Ætla mér samt ekki að vitna í hin frægu orð Ingrid Bergman. Það er ofnotuð og illa meðfarin tilvitnun. Þess í stað er hér önnur:

Ilsa: I wasn’t sure you were the same. Let’s see, the last time we met …
Rick: Was La Belle Aurore.
Ilsa: How nice, you remembered. But of course, that was the day the Germans marched into Paris.
Rick: Not an easy day to forget.
Ilsa: No.
Rick: I remember every detail. The Germans wore gray, you wore blue.

Ég veit ekki hvað það er nákvæmlega sem veldur, en Casablanca er einfaldlega besta mynd allra tíma að mínu mati, fullkomið ævintýri. Og hver segir að ævintýri geti ekki gerst lengur?

Íslenskir nasistar

Nú fyrir skemmstu sat undirritaður á kaffihúsi í miðborg Reykjavíkur og reyndi sem mest hann mátti að njóta veru sinnar þar. Það reyndist honum hinsvegar þónokkur Sýsifosarsteinn að velta, sökum þess að á téðu kaffihúsi var urmull af nasistum, þeir bókstaflega fylltu rýmið. Eftir um klukkustundar veru í gjallandi upphrópunum nasistanna um ríkið, foringjann og júðana, hafði undirritaður fengið sinn skammt og yfirgaf svæðið.

Undirrituðum er það þónokkuð áhyggjuefni, ef ungt fólk finnur köllun sína í boðskap hins liðna foringja þýsku þjóðernisstefnunnar. Það er umdeilanlegt, hvort betra sé að hafa það á yfirborðinu, líkt og undirritaður upplifði nú um daginn, eða að hafa það dulið líkt og mörg önnur þjóðfélagsmein. Ansi veikur hlýtur hvíti kynstofninn að vera, samkvæmt þeirra eigin vísindum, fyrst hinir örmu gyðingar geta svo léttilega undirokað hann alla leið frá Ísrael – án þess einu sinni að reyna.

Talandi um Ísrael, vitaskuld var það að þeirra dómi glæpsamlegt af Halldóri Ásgrímssyni, að hafa einu sinni eða jafnvel oftar tekið í höndina á því hinu mesta júðakykvendi sem um getur, Ariel Sharon. Skárra væri það þó ekki, færi hann þuklandi höndum um skítugar lúkur sandnegranna. Óskandi væri, að allt helvítis liðið yrði sprengt í tætlur. Himmler, að sjálfsögðu, hafði engan rétt á að reyna að selja Þýskaland í hendur bandamönnum. Pólverjar, það vita nú allir, er aumasti hlekkur hins hvíta kynstofns, óiðnustu andskotar sem um getur. Og negrarnir, þeir hafa ekkert sér til ágætis; hver vill svosum hafa typpi á stærð við púströr? Víst er þetta nær orðrétt ágrip af samræðum þeirra.

Um þennan málflutning er best að hafa sem fæst orð. Hann dæmir sig sjálfur. Það má slæmt þykja, að þessar skoðanir viðgangist á almannafæri. Fordómar eru og verða alltaf til, það er vitað mál. Það er hinsvegar ekki nándar nærri eins slæmt, að vera prívat og persónulega haldinn þeim ranghugmyndum, að fólk af tilteknum uppruna sé á einhvern hátt verra en annað og að endurtaka ræður Adolfs Hitlers af sömu sannfæringu undir blaktandi gunnfána, og trúa því staðfastlega að kynbæta þurfi heiminn, svo hinn hvíti maður og hans feiknamikilvæga vestræna menning megi komast af. Og undirritaður vill síst til þess hugsa, að þau hin sömu og boðskapur nasista beinist gegn, þurfi að eiga það á hættu að sitja undir öðrum eins þvættingi á almannafæri. Það er grafalvarlegt brot á réttindum þeirra, og vissulega er það áhyggjuefni, því hver veit hvert vegurinn liggur, fyrr en fyrsta skrefið hefur verið tekið.

– Birtist á Múrnum 3. febrúar 2006.