Gæluverkefnið tekur völdin

Ekki velur maður sér gæluverkefni eftir umfangi, svo mikið er ljóst. Sum hver virðast á stundum eins ómöguleg viðureignar og ef brúa ætti bilið milli Mars og Venusar (ath. myndmál). Þegar þannig viðrar skal ekki láta deigan síga heldur hella sér út í baráttuna af meiri krafti. Bara að passa upp á að gæluverkefnið nái ekki yfirhöndinni, eins og henti mig áðan, þegar ég gleymdi mikilvægu prófi sem er á morgun og aflaði mér hvorki lesefnis né upplýsinga um hvaða kafla ætti að lesa. Ótrúlegt þykir mér þó að það er í þann mund að bjargast, senn fæ ég lesefnið og upplýsingarnar komnar í pósthólfið. Fyrir horn slapp sá armi maður.

Rétt í þessu er svo hringt í mig, haldiði ekki, og mér tjáð að prófinu sé frestað um viku. Naumast forlögin maður, ha? Og skilafrestur á stóru ritgerðinni rýmkaður um hálfan mánuð. Það er því útlit fyrir að Akkiles sofi örvarlaus um hælinn í nótt. Naumu mátti muna áður hann stakk henni þangað sjálfur. Svefn er fyrir honum þessa dagana nokkuð sem menn gera aðeins ef þeir hafa ekkert betra að gera. En svo virðist sem nokkuð sannleikskorn sé í þeim einkunnarorðum Framsóknarflokksins sem haldið er á lofti fyrir hverjar kosningar, hver hljóða svo: „Þetta reddast“ (lat. Nunc est reddam).