Kom inn veikur, fer út veikur

Ég hafna þeim möguleika að ég sé að fá hálsbólgu í annað sinn í sama mánuði! Sjáum hversu langt ég kemst á afneitun. Þetta er alveg makalaust, aldrei hefur þetta komið fyrir mig áður. Ekki síður er þetta óvanalegt vegna þess að fyrst fékk ég hálsbólgu 1. mars, nú fæ ég hana aftur 31. mars. Ef væri ég táknfræðingurinn Robert Langdon legði ég tvo og tvo saman og kæmist að þeirri röklegu niðurstöðu að þetta sé tákn, annars vegar að veikindi verði upphaf alls og endir í mínu lífi, hinsvegar að frið finni ég aðeins í miðju stríði (Mars er jú stríðsguðinn), svo myndi ég kenna musterisriddurunum og páfastóli um alltsaman og gerast skeptískur á albínóa í svörtum kuflum. Svo myndi ég endurskoða gildi menntunar minnar og jafnvel segja skapara mínum að fá sér vinnu. En ég er ekki Robert Langdon, svo ég sætti mig við að drekka tebolla og (reyna að) fara snemma að sofa.

Hinsta vorið og tilbehör

Þreyta og sljóleiki. Nostalgía samhliða kvíða samhliða óþreyju eftir framtíðinni. Ótti við að mistakast. Löngun til að ferðast. Löngun til að flytja í eigið húsnæði. Von um uppfyllingu drauma. Tregi til að takast á við nýjungar. Óvissa. Vantrú á kosti valsins. Von um farsæla hamingjuleit. Gremja, galsi, áræðni, kæruleysi. Svefnleysi, andleysi, óbilgirni, kröfuharka. Trú, söknuður, væntingar, von.

Á enn einum vordegi

Skyndilega voraði enn einu sinni í forræðisdeilu árstíðanna. Vissulega léttir það lundina. Fernt vegur þó á móti:

1. Stóra ritgerðin komin niður í 30 blaðsíður og enn get ég (og mun) stytta hana.
2. Fyrirlestur um Þriðja maí eftir Goya sem þarf að semja fyrir flutning á morgun.
3. Síþreyta. Ég hvílist ekki þótt ég sofi og kaffi hjálpar ekkert.
4. Ef við bætum eirðarleysi við atriði 3 er komin uppskriftin að andlegri stólpípu.

Þó fer nú senn að styttast í leiðarlok. Höfuðstærð mæld í dag af frenólóg frá P. Eyefeld, síðasti kennsludagur í næstu viku, sólarhringsfyllerí þann 21. apríl, uppáhaldið mitt hefst svo þann 27. (prófatörnin) og moldun fer fram nákvæmlega mánuði síðar með tilheyrandi erfidrykkju þar á eftir. Á svona dögum vill maður þó síst hugsa um allt það heldur einfaldlega njóta þess að vera til. En því miður fer dagurinn, öðrum dögum líkt, í verkefnavinnu. Veikist þá vort langlundargeð.

Uppfært kl. 17:22
Á ég að trúa því að Word leiðrétti ekki fokkíng tölusetningar neðanmálsgreinanna þegar ég eyði einni?! Á ég að þurfa að gera þetta? ÞARF ÉG ANDSKOTAKORNIÐ AÐ EYÐA HVERRI EINUSTU NEÐANMÁLSGREIN OG STIMPLA ÞÆR ALLAR AFTUR INN SJÁLFUR??? Hvaða djöfulsins fokkíng kjaftæði er það!?

Uppfært kl. 20:52
Ég held, svei mér þá, að ritgerðin sé tilbúin. Síðasti yfirlestur núna og ekki orð um það meir. Svo hefst vinna á fyrirlestrinum.

Uppfært kl. 22:38
Ritgerðin endaði í 27 blaðsíðum. Það er töluvert minna en 39 blaðsíður. Til þess að gera er ég ánægður með hana, en siðskiptin eyðileggja hana í lokin. Það verður að hafa það. Þá hefst vinna á fyrirlestrinum. Meira af áhugaverðu lífi mínu á morgun.

Þrælaskip

Málverk dagsins er Þrælaskip Josephs Mallards Williams Turner frá 1840. Þótt viðfangsefnið sé gróteskt (verið er að kasta dauðum og deyjandi fyrir borð) er myndbyggingin og litaflæðið svo magnað að nær ómögulegt er að lýsa því með orðum. Myndin nýtur sín betur úr fjarlægð svo ég mæli með því þið bakkið um nokkra metra frá skjánum og njótið hennar þannig.

Tveir pistlar

Þessi pistill er bæði lélegur og gjörsamlega tilgangslaus. Hann er samt fyndinn. Allar vangaveltur um hvernig það hefði nú verið hefði þessi eða hinn lifað lengur eru nefnilega í eðli sínu bæði lélegar og tilgangslausar, og enda þótt það geti verið fyndið að agnúast út í slíkar hugleiðingar er það alveg jafn lélegt og tilgangslaust, vegna þess að slíkar hugleiðingar eru tiltölulega saklausar svo lengi sem þeim er ekki fleygt fram sem staðreyndum eða raunverulegum líkindum.

Þessi pistill er hinsvegar hvorki lélegur né tilgangslaus. Sjálfur færist ég æ nær þeirri skoðun að tungutak fólks skipti ekki höfuðmáli svo lengi sem merkingin kemst til skila. Sumum þykir málið afar kynbundið og vilja afkynvæða það. Þetta er ekki hægt svo vel sé, og í raun fyllilega tilgangslaust. Kyn orða hafa nefnilega enga raunverulega skírskotun í kyn þess fólks sem um ræðir. Gott dæmi er das Mädchen í þýsku (stúlkið). Í raun er tungumálið fyrst kynvætt þegar tilraunir til afkynvæðingar eiga sér stað; þar sem kyn orða höfðu áður enga skírskotun til raunveruleikans veitist þeim hún með afkynvæðingunni. Þetta er hinsvegar kannski ekki neitt sérlega mikilvægt. Það sem er mikilvægt er að við þyrftum að finna nýjar leiðir til að orða sömu hluti og að „þýðing“ eldri setninga yfir á hina nýju málfarsstefnu gæti riðlað merkingu þeirra. Grunnpunkturinn er svo vitaskuld sá: Tungumálið þróast ekki vegna þess þú segir því að gera það. Þannig virkar það bara því miður ekki.

Á síðdegi morgundags nætur dauðans

Segja má að ferli lógaritmískrar stigmögnunar á fjölda kaffibolla sem þarf til að halda mér vakandi hvern klukkutíma sem bætist við daginn hafi náð hámarki sínu með tilliti til lögmálsins um minnkandi afrakstur, líkt og hröðun steins sem kastað er þráðbeint upp fer minnkandi uns hún er engin og verður loks neikvæð. Fyrir næsta klukkutíma þyrfti ég þannig að drekka könnu af kaffi, fyrir þarnæsta þyrfti ég könnu2 o.s.frv. Með öðrum orðum: Þetta er hætt að borga sig. Ég ætla að leggja mig.

Að morgni nætur dauðans

Þreyttur í gær? Nei, þreyttur núna. Kötturinn hélt mér vakandi í alla nótt. Hún æmti eins og Dórótea í skýstróknum og ekki tjóandi við henni. Kannski ekki að furða, sjálfur bjóst ég hálft í hvoru við að ranka við mér í Oz.

Litli bróðir segist svo ekki skilja hvers vegna hann snjói alltaf á þriðjudögum. Hann kann að hafa nokkuð til síns máls.

Þreyttur að kveldi aðgerðalítils dags

Grein í Steingerði tilbúin. Hún fjallar um mikilvægi listarinnar. Þá eru allar áætlaðar greinar skrifaðar, vona þær verði ekki fleiri í bili. Fékk smá sjokk í svona mínútu þegar ég var nýbúinn að skrifa hana og upp kom sá möguleiki að Steingerður væri þegar farin í prentun. Við nánari eftirgrennslan reyndist það sem betur fer ekki rétt.

Sjálfsagt klára ég lagfæringar á stóru ritgerðinni á morgun og læt binda inn daginn eftir. Geri ráð fyrir hilluplássi inni á bókasafni, líkt og hlaut rannsókn okkar Brynjars frá í fyrra.

En af skrifum hef ég fengið nóg í bili og nú þrái ég komu vorsins og sumars án nokkurra annarra skylda en að mæta í vinnuna að morgni dags. Held ég hafi sjaldan verið eins útjaskaður og útkeyrður af akademískri metnaðargirni. Og hver verður svo tilfinningin að sjá öll þessi ár standa sem tölur á blaði? Eru það ekki vonbrigði, eftir alla þá lífsreynslu og þroska sem maður hefur meðtekið á svo löngum tíma? Félagslegi þátturinn er allt námið. Tölurnar eru einskis virði. Áreiðanlega verður útskriftin andklímax dauðans. En það er víst andklímaxinn sem er mælikvarði á getu og gerir fjölskyldur svo stoltar.

Múr, rok, virkjun

Múrgrein dagsins er víst eftir mig þótt skammstöfunin á nafninu mínu sé eitthvað kindarleg (uppfært: hún hefur nú verið löguð).

Ég er ekki mikill aðdáandi fárviðris, nema sé ég innandyra í hálfrökkvu herbergi undir sæng með tebolla og góða bók. Þó var ég sérstaklega lítt hrifinn í dag af að þurfa að plokka sandkorn úr augunum við hvert fótmál.

Það er greinilegt að öryggiseftirlit er sérstaklega mikið við Kárahnjúka. Það sést á fjölda þeirra sem látið hafa lífið við gerð virkjunarinnar. Er þetta sá fjórði? Kárahnjúkavirkjun er áreiðanlega hættulegasti vinnustaður Íslands fyrr og síðar!

Jafnréttisumræðan

Í hvert einasta sinn sem umræðan um jafnrétti fer af stað mætti halda að hún væri ný af nálinni, altént ef miðað er við háværustu gagnrýnisraddirnar. Til dæmis sér nú loks fyrir endann á baráttu samkynhneigðra fyrir sjálfsögðum réttindum. Til stendur að þeim verði veitt öll réttindi, utan þau að Alþingi hefur ákveðið að þrýsta ekki á þjóðkirkjuna að afsala sér valdi sínu til að meina öðrum trúfélögum að gifta homma og lesbíur. Það kemur innan skamms, höfum ekki áhyggjur af því. Höfum heldur áhyggjur af þeim sem finna meinbugi á þessu.

Umræðan um réttindi samkynhneigðra er ekki ný undir sólinni. Gegnum árin hefur óréttlæti gegn hinum sundurleitustu hópum verið afnumið með lagasetningum, enda þótt samfélagið hafi kannski ekki alltaf látið sér segjast eins fljótlega. Þannig var til að mynda réttindabarátta þeldökkra mikið heillaspor í mannkynssögunni og almennt mun nú viðurkennt að mismunun á grundvelli húðlitar sé fáránleg. Að minnsta kosti viðurkenna það flestir. Sumir viðurkenna svo ef til vill réttindi svartra en finnast Thailendingar öllu verri. En það er önnur saga. Áreiðanlega héldu margir að baráttumenn væru að grínast, svona rétt eins og ég held stundum að rasistar séu að grínast. Grátlegt hve sjaldan ég hef rétt fyrir mér um það.

Deila má um nytsemi baráttuaðferða súffragettanna, og mikið djöfull þótti nú sjálfsagt uppi á þeim typpið, þessum „kerlingartuðrum“, á sínum tíma. Í jafnréttisbaráttunni er enginn spámaður samtíma síns. Engu að síður hrundu þær af stað ferli sem í dag hefur stuðlað að mikilli vitundaraukningu um kjör og aðstæður kvenna, og almennt mun viðurkennt að konur skuli hvarvetna standa körlum jafnfætis. Ekki munu þó allir sammála um hvort svo sé í reynd.

Þegar öllu er á botninn hvolft reynist barátta kvenna langt frá því að vera lokið. Alls kyns groddalegar setningar heyrast víðast hvar í hinu daglega lífi, og fordómar, duldir sem meðvitaðir, grassera meðal ótrúlegustu einstaklinga. Helstu gáfumenni í hópi andstæðinga feminismans klifra upp á köllunarkletta samfélagsins hrópandi að konurnar séu komnar til að taka af þeim typpið, að þær kunni ekki að keyra, að þeim beri ekki að greiða sömu laun vegna minna físíkalítets. Þetta er eiginlega eins grátlegt og það er fyndið. Og nú nýlegast átti vor allranáðugasti utanríkisráðherra gott innlegg inn í sívaxandi flóru karllægrar rhetóríkur. Eftir stendur að baráttu kvenna er síst lokið, en þó virðast flestir á einu máli um jafnrétti kvenna og karla. Hvað veldur?

Umræðan um réttindabaráttu samkynhneigðra tekur reglulega út yfir allan þjófabálk. Ónefndir trúarleiðtogar finna því allt til foráttu að „þessu fólki“ verði gert heimilt að ala upp börn, „þetta fólk“ muni snúa þeim til saurugs lifnaðarháttar, að það sé vísindalega sannað að „þetta fólk“ sé verri foreldrar en „við hin“. Allt eru þetta lygar, sprottnar upp af fáfræði og mögulega trúarofstæki. Á sama hátt og svartir þóttu aðeins hæfir til að þræla fyrir hvíta og konan var aðeins hæf til að þjóna karlinum, þá þykir mörgum samkynhneigðir vart til neins hæfir og trúa því jafnvel að þeir fari beinustu leið til helvítis.

Sjáið þið mynstrið? Það er sama baráttan. Svartir, konur, samkynhneigðir. Þarf að berjast fyrir réttindum alls fólks, aftur og aftur og aftur og út í hið óendanlega? Hvenær ætlum við að sjá í gegnum þessa heimskulegu orðræðu? Hvenær ætlum við að sjá að umræðan er komin langt út fyrir hið fáránlega og ákveða í eitt skipti fyrir öll að tími er til kominn að allir njóti sömu réttinda, sama í hvaða dilka fólk vill draga þá? Tíminn er núna. Hættum þessu kjaftæði!

– Birtist á Múrnum 27. mars 2006.