Veikur og bitur

Veikindi mín hafa sett talsvert strik í reikninginn. Fyrir vikið er ég hvorki neitt sérlega upplitsdjarfur né bjartsýnn. Mér er farið að finnast sem hlutirnir gætu ekki verið mikið verri. Fyrir utan svo auðvitað að ég er því sem næst óvinnufær. Megna varla einu sinni að lesa á bók. Pynta mig samt til að sitja fyrir framan tölvuna dægrin löng með kjörsviðsverkefnið opið, enda þótt ég viti vel að ekkert verður í því unnið. Það er hvort eð er allt eins slæmt, að liggja, standa, sitja. Það er hvort eð er ekki verkefnið mitt lengur, heldur verkefni leiðbeinandans. Mér er skapi næst að hreinlega skila verkefninu hálfkláruðu og rétt skríða yfir útskrift. Já, andskotinn hafi það. Ég fordæmi aukinheldur þetta andskotans verkefni, það vegur of þungt og misvitrir leiðbeinendur hafa einræðisvald yfir því hvaða efni menn velja sér og hvernig það er sett fram. Hvað hef ég, svona viku til að skrifa næstu fimmtán blaðsíður, um efni sem ég hvorki veit né vil vita neitt um! Eftir að ég klára hana, eftir að ég hef skilað henni og fengið til baka, þá brenni ég þessa ritgerð. Og aldrei aftur mun ég leggja traust mitt á nokkurn að óreyndu.