IKEA – sjáumst í næsta lífi!

Ég verð ekki í fríi á baráttudegi verkalýðsins á morgun. Það er vegna þess að frá klukkan sex í kvöld hef ég verið atvinnulaus. Vonir standa þó til að það verði ekki lengi, bókasafnið sveik mig um svar fyrir vikulok svo ég neyðist til að hringja sjálfur á þriðjudaginn. Mikið er nú samt gott að vita sig frjálsan frá afgreiðsluborðum húsgagnadeildar IKEA.

Annars gleymdi ég að taka kollhnísinn sem ég hafði alltaf lofað sjálfum mér. Kannski maður geri sér bara sérferð einhverntíma. En fyrst ég er laus á annað borð leyfi ég mér að spyrja opinberlega: Er þetta ekki grín? Sérstaklega myndin neðst til vinstri.

Ljóð dagsins er svo eftir sjálfan mig og heitir „Skilaboð frá Svíþjóð“:

EKKI TIL EN
VÆNTANLEGT
HAFÐU
SAMBAND VIÐ
AFGREIÐSLUFÓLK
Feis!

Flottræfillinn

Fyrir sýndarmennsku sakir tek ég fram að síðastliðið föstudagskvöld fór ég með góðu fólki út að borða á Rossopomodoro. Ég er að hugsa um að gera það mánaðarlega, það er nefnilega svo ódýrt. Maturinn er líka ágætur. Finnst samt ekkert sérlega heillandi að þurfa að horfa á kokkana elda hann. En kannski er þetta framtíðin. Kannski mun einn dag opna hér íslenskur veitingastaður, slátur á boðstólum, viðskiptavinirnir fengnir til að horfa á þá sauma saman blóðuga keppina. Jájá, öfgar, ég veit.

Hér hefur áður verið bloggað um húsnæðismál. Nú er ég að hugsa um að þekkjast boð um herbergiskytru í vesturbænum. Það kostar 30.000 krónur á mánuði. Það er þó óvíst að það verði ennþá laust þegar haustar. Alltsaman kemur þetta í ljós á endanum. Mun frekar vildi ég þó borga aðeins meira og geta leigt eitthvað aðeins stærra með góðum meðleigjanda. En mér sýnist fokið í flest skjól með þessa blessuðu meðleigjendur, fæstir vina minna neitt að flýta sér að heiman.

Næstsíðasti dagurinn

Næstsíðasti vinnudagurinn liðinn og enn hef ég ekkert prakkarastrikast, eins og menn kalla það. Augljóslega er aldurinn að færast yfir mig, fyrst mér kemur ekki til hugar að stelast út í sígó (harðbannað), vera of lengi í kaffi, láta mig hverfa tímunum saman (eins og sumir) eða vera með tilgangslaus uppsteit við yfirvaldið (aftur, eins og sumir).

Síðasti dagurinn á morgun. Ég ætla að taka kollhnís í borðstofudeildinni.

Skyndilega er ég sneisafullur af hugmyndum. Er með grunnhugmyndina að nokkrum bókum til að skrifa í höfðinu. Hinsvegar lætur andagiftin eitthvað á sér standa, svo allt er drasl sem ég skrifa þessa dagana. Það vonandi kemur þegar ég eignast mína eigin tölvu og kem skipulagi á öll skjölin mín. Hef ekki átt slíkt í tæp tvö ár.

Blíðskaparveður

Það er blíðskaparveður. Skrapp aðeins upp í skóla að fá lánaða bók og langaði varla heim aftur. Núna vildi ég geta setið við tjörnina og kastað brauðmylsnu fyrir endurnar (orðið dálítið langt síðan síðast), en ég þarf að vinna. Síðasta vinnuhelgin. Ó, hví kom hún ei fyrr?

Ó, fagra Reykjavík!

Ég hef alltaf talið Elliðaárdalinn sannkallaða vin í skrælnaðri eyðimörk Reykjavíkur, og í gærkvöldi ákvað ég að fara þangað fyrsta sinni á ævinni, til að létta á þunga skapinu sem ég var í. Hvað gæti verið betur til þess fallið að létta á skapinu en að ganga um síðasta náttúrlega landslag höfuðborgarinnar á hlýju vorkvöldi, hlusta á niðinn í lækjum og fuglasöng, og anda að sér fersku lofti. Sjálfsagt væri fátt betur til þess fallið, en sjálfsagt hefði mér getað dottið eitthvað betra í hug en þessi skaðræðisdalur.

Elliðaárdalurinn, vissi ég, er ekki einungis umkringdur tveim stærstu umferðaræðum borgarinnar, heldur einnig Árbænum og neðra-Breiðholti. Það hljómar ekki vænlega, en mér hafði verið sagt að Elliðaárdalurinn væri „síðasta og fegursta útivistarsvæði Reykjavíkur“. Ég var ranglega upplýstur. Þannig er sannleikurinn: Ljót brú teygir sig yfir Elliðaána, verður að ljótari steypuklumpi sem gengur meðfram Miklubrautinni og endar við Sæbraut/Vesturlandsveg. Út af klumpinum má beygja til suðurs inn á lítinn malarstíg. Á allar hliðar má sjá sinu og illa farið kjarr. Eftir því sem stígurinn teygir sig lengra spretta loks upp barrtré vestan megin stígsins. Austan megin gnæfir orkustöðin yfir öllu. Á alla kanta heyrist umferðarniður og hvorki hægt að líta til norðurs né vesturs án þess að sjá brunandi bílaumferð. Loftið er síst hreinna en annarsstaðar í Reykjavík, umhverfið síst fegurra en annarsstaðar í Reykjavík, stemningin álíka og á umferðareyju. Eini munurinn eru lækirnir. Þeir eru víst fáir orðnir eftir í Reykjavík. Ég fór ekki lengra en þetta. Og betur hefði ég farið eitthvert annað.

Ég sé það hinsvegar núna að hvorki verður haldið né sleppt hvað mig varðar, því ég vil bæði búa í borg og í sveit, en Reykjavík er alls ekki borg og á suðurlandi eru engar sveitir nema síður sé. Að minnsta kosti engir skógar. Hvað útivistarsvæði varðar höfum við reykvíkingar aðeins Heiðmörkina, þann guðsvolaða stað, Grasagarðinn, heldur lítill og einum of augljóslega manngerður, Hljómskálagarðinn (oj), skógræktarsvæðið í Fossvogsdalnum og mögulega síðasta vígið, sem ég á eftir að kanna nánar, dalverpið milli Árbæjar og Breiðholts, ofan Elliðaárvirkjunar. Sjálf virkjunin markar landamæri náttúru og ónáttúru; fyrir neðan hana hefst draslplássið sem átti að heita síðasti fagri bletturinn í borginni.

Hvers vegna státar Reykjavík ekki af almennilegum Listigarði, líkt og Akureyri, eða Kjarnaskógi, líkt og Akureyri? Nú er ég ekki að segja að ég sé farinn til Akureyrar, en mér verður meir og meir uppsiga við þetta pláss eftir því sem árin líða, hér er ekki nokkur griðastaður, hér er ekkert nema umferðareyjur, ef það er stytta eða kjarr ofaná heitir það útivistarsvæði, sjálf borgin er aðeins bil á milli akbrauta; Reykjavík er ekki borg fyrir fólk heldur borg fyrir bíla þess, borg sem gengur út á að koma sér sem hraðast undan einu þaki undir annað, átta til fjögur-borg. Við sem ekki eigum bíla og eigum því engan kost á að flýja, við megum húka í Laugardalnum, innan um trúða, pylsur, gasblöðrur og blessuð húsdýrin.

Prófið

Próftíminn var alltof stuttur. Ekki skil ég hvað skólayfirvöldum liggur á að koma nemendum sem fyrst út úr prófum, en þá væri nær að gera raunhæfar kröfur. Og þegar hrognasvör við fjórum spurningum síðasta kortérið gætu kostað mig verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur, hlýt ég að spyrja hvers vegna fallið var frá þriggja tíma hefðinni. Eins og gjörla sést á fyrri helmingi prófsins stefndi ég á tíuna. Hana fæ ég ekki úr þessu.

Líkt var með stúdentsprófið í dönsku á sínum tíma. Þar hefði ég fengið tíu ef hefði ég ekki misst af smáa letrinu og svarað á dönsku 15% spurningu þar sem þess var krafist að svarað væri á íslensku. Mín rök í málinu voru hunsuð, en þau voru á þá leið að varla hefði mér gefist verr að svara spurningunni á mínu eigin móðurmáli. Ég fékk 8,5. Ekki einasta stig fékk ég fyrir hárrétt svar á vitlausri tungu.

Hvorttveggja gremst mér, þó meir það sem nær er í tíma. Mér þætti ekki óeðlileg krafa að allir yrðu hækkaðir um 0,5 í einkunn á prófinu frá í dag og að próftími yrði eðlilegir þrír tímar fyrir þau próf sem eftir eru. Hvað hlýtur það að segja um próf þegar mestur áhugamaður um viðkomandi fag getur ekki klárað það? Ennfremur, hvað segir það pars pro toto? Ef til vill hljómar það eins og hin versta sjálfhverfa en ég segi það samt: Ef ég átti ekki séns, hvaða séns áttu þá þeir sem ekki hafa eins mikla umframþekkingu á námsefninu, hafa ekki lesið sér til útfyrir efnið, lesið það upp til agna, hafa ekki tileinkað sér fræðin, beitt þeim sjálfir og elskað þau. Já, bókstaflega elskað þau.

Þetta var aldrei spurning um að standast eitthvað stúdentspróf. Það var spurning um að standast þær kröfur sem ég geri til sjálfs mín. Og í dag stóðst ég ekki þær kröfur. Skiptir þá engu um ytri eða innri orsakir. Fullkomnunarsinninn er engu bættari þótt það sé sendiboði til að skjóta, sama hvort hann skjóti hann eða ekki, því fullkomnunarsinninn gat alltaf gert betur. Jafnvel þegar hann átti ekki séns.

Sigurskáldið 2006

Í Fréttablaðinu er viðtal og mynd af sigurskáldinu 2006. Kemur í ljós að það er fyrrum bekkjarsystir til tveggja ára og skólasystir til átta ára þaráofan, Ásta Heiðrún. Sendi henni hamingjuóskir með hugskeyti, nema svo ólíklega vilji til hún lesi þetta, þá fær hún þær einnig á prenti.

Sjálfur sendi ég ekkert inn. Álit mitt á þessari keppni kemur raunar skýrt fram í því að ég hef ekki bloggað um hana fyrr.

Þessi færsla er í raun endurritun á færslu sem ég skrifaði klukkan níu í morgun, hvar ég þvísemnæst skeindi mér á þessari tilgerðarlegu ljóðakeppni forlags sem ekki gefur út ljóðabækur nema fyrir mögulegan ágóða eða bara til að segjast gefa út ljóðabækur, veitir sjálfum keppendunum ekki verðlaun, aðeins kjósendum, og það þá ekki einu sinni ljóðabækur heldur skáldsögur. Ég hinsvegar birti ekki þá færslu vegna þess mér fannst óviðeigandi að óska Ástu til hamingju með sigur í keppni í sömu færslu og ég drulla yfir téða keppni. Ég sé hinsvegar ég hef gert það aftur. Kannski eru það forlögin sem haga þessu þannig.

Leiðrétting: Ég sá það á öðru bloggi að vissulega voru sigurverðlaun, það munu hafa verið ljóðasöfn.

Vaknað árdegis

Í nótt dreymdi mig að ég ætti í þeim hvimleiða vanda að þurfa að koma svona risaeðlu út úr herberginu mínu. Það er ekki alltaf að maður er einu sinni svo heppinn. Í gær lagði ég mig til dæmis og dreymdi að ég væri í vinnunni.

Annars stefndi ég á fimm tíma svefn í nótt. Það virðist hafa tekist nærri upp á mínútu.

Þjónustuver Símans

Í gærkvöldi þurfti ég nauðsynlega að komast á netið. Einmitt þá lá það niðri og einmitt þá dugðu engin venjuleg úrræði. Svo ég hringdi í þjónustuver Símans, þrátt fyrir að þau þar firri sig jafnan allri ábyrgð og neiti að aðstoða okkur sem höfum þráðlaust netsamband (þau semsagt þjónusta ekki vinsælustu þjónustuleiðirnar, enda með öllu ótækt að þjónusta alla þá aula sem láta glepjast af linnulausum símhringingum sínum og auglýsingum).

Sem venjulega undir þessum kringumstæðum var ég tengdur inn á skaðræðis manndómsvígsluvígvélina sem spilar linnulausa sixties-tónlist, að þessu sinni gekk vélin það langt að spila fyrir mig tónmorð The Monkeys. Ég reyndi að halda tólinu eins langt frá eyranu og ég gat en þó það nálægt að ég gæti heyrt ef kvalarlostafullum úrþvættunum kæmi það mögulega til hugar að svara símanum. Þannig sat ég í kortér, meðan blóðið frussaðist úr eyrum mér og nístandi sársaukinn leysti upp í mér heilalímingarnar. Loks stöðvaðist hryllingurinn og einum of kunnugleg rödd kom í símann: Þú ert númer þrjátíu í röðinni! Ég skellti á. Greinilega landlægt vandamál, hugsaði ég, með síðustu örðu af lífsorku sem ég átti eftir eða þvísemnæst.

Þá prófaði ég að keyra upp vafrann aftur. Það gekk, netið var komið í lag, af sjálfu sér. Eins gott, til þess eins hefði ég beðið allan tímann í símanum að láta segja mér að ég væri handan aðstoðar, meðan The Monkeys hefðu sargað sundur á mér hausinn. Þó vil ég koma þökkum áleiðis til þjónustuvers Símans, sem aldrei bregst þegar nauðin er hvað mest. Hver veit nema ekkert hefði gerst hefði ég ekki hringt.

Það má bæta þeirri athugasemd hér við, vegna viðbragða við fyrri færslum viðlíka þessari, að allt er þetta í góðu gamni sagt. Ég er ekki pirraður út í þjónustuver Símans vegna þessa. Það væri fáránlegt. Þó verð ég að játa, að tregða þeirra við að aðstoða fólk með þráðlausa tengingu er fyrir neðan allar hellur. Þau geta það nefnilega vel, þau gerðu það alltaf þartil Síminn var seldur.