Myndir af Laugarneshverfi 1990-1991

Ég fór skyndilega að velta fyrir mér, eftir að ég las þessa færslu hjá Hjördísi, að ég hef búið í Laugarneshverfinu í að verða sextán ár. Þaráður bjuggum við í Gnoðarvogi 38, í eitthvað um fjögur til fimm ár í heildina. Af tveimur síðustu árunum sem við bjuggum þar eyddum við einu og hálfu á Via Emanueli í Piacenza.

Af þessum þremur stöðum kunni ég síst við Gnoðarvoginn, mér hefur alltaf þótt vogarnir fremur litlausir og ópersónulegir. Fyrir utan svo auðvitað að gæslurólóinn í næstu götu var helvíti á jörðu. Mestar rætur mun ég hafa fest á Ítalíu þótt skammt hafi ég dvalið og þegar við snerum aftur í Gnoðarvoginn snemma árs 1990 var heimurinn ekki alveg eins smár. Fyrsta einum og hálfa mánuðinum eða svo eyddi ég í Langholtsskóla. Þar át maður eða var étinn. Svo fluttum við á Laugarnesið.

Við bróðir minn (sem er langtum steiktari en ég) sóttum báðir Laugarnesskóla og einn fyrsta daginn minn í skólanum man ég að ég sá aftan á hann hvar hann gekk meðfram íþróttahúsinu. Ég var handviss um að það væri hann því við áttum alveg eins úlpur, sem keyptar höfðu verið á Ítalíu. Þegar ég svo þreif í öxl hans og hrópaði „bö“ eða eitthvað viðlíka reyndist þetta vera einhver allt annar strákur. Hann leit á úlpuna mína og kallaði mig hermikráku. Svo fór hann, ég alveg forviða á því að sama úlpa væri fáanleg í þessum heimshluta.

Ég hafði verið hjá herfilegri dagmömmu meðan ég var í Langholtsskóla, sem bókstaflega eldaði drullu ofan í okkur, hverrar sonur át Bugles með mjólk út á og dýfði pylsum ofan í tómatsósu OG kók áður hann át þær. Eftir að við færðum okkur um set var ég hinsvegar geymdur hjá dagmömmu sem bjó hinumegin við götuna frá skólanum og var alveg æðisleg. Svo miklar mætur hafði ég á henni að eftir að ég fékk meira ferðafrelsi hóf ég að heimsækja hana við og við, það er uns hún flutti. Ég man ekki hvað hún heitir en mig minnir hún hafi verið Bachman.

Ég var fljótur að laga mig að breyttu umhverfi. Líklegast hef ég byrjað í Laugarnesskóla í fyrri hluta eða um miðjan október 1990 og þegar kom að því að bjóða í sex ára afmælið mitt þann fyrsta nóvember lenti ég í engum vandræðum. Gestir voru Arnar Halldórsson, elsti vinur minn, sem ég hef nú nær algjörlega misst samband við, Arinbjörn Hauksson, síðar Ármaður Menntaskólans við Sund (er ekki viss hvað hann er að gera núna, en hann heldur víst úti bloggsíðu hér), strákur að nafni Sævar, sem menn muna helst eftir fyrir gildan vöxt sinn (pabbi man helst eftir honum fyrir að hafa alltaf borðað nestið mitt) og stúlka nokkur að nafni Soffía, sem bjó á hæðinni fyrir neðan okkur í Gnoðarvoginum. Þrír fyrstnefndu voru allir bekkjarfélagar mínir. Eftir því sem leið á veturinn kynntist ég fleira mektarfólki, ber þá helst að nefna Ásgeir Sigurjónsson, minn næstelsta vin, en hann var raunar í öðrum bekk. Það var mikið Ginnungagap á sínum tíma.

Umsjónarkennarar þennan fyrsta vetur voru tveir, Sólveig og Kristín. Sú fyrrnefnda var frábær en sú síðarnefnda afsprengi djöfulsins. Einhverju sinni krassaði Kristín yfir útreiknuð stærðfræðidæmi í bókinni minni og öskraði á mig að þau væru öll vitlaus. Öðru sinni öskraði hún á mig þegar ég fékk sápu í augun við að þvo mér um hendurnar. Snarvitlaus gýgur sem var sígjótandi börnum, held hún hafi verið rekin síðar.
Sólveig var fullkomin andstæða Kristínar, fullkomlega alúðleg og barngóð kona, sem síðar átti eftir að kenna litla bróður mínum. Hún hefur nú nýverið látið af störfum við Laugarnesskóla. Seint mun ég þó botna í því þegar við Bergþóra bekkjarsystir áttum að hennar tilskipan að vera inni í löngu frímínútunum að sópa gólfið eftir föndurtíma bekkjarins (við vildum það heldur en fara út, engin barnaþrælkun per se). Við gleymdum okkur þó fljótt við skyldustörfin og fórum að leika okkur, og lékum við okkur allar frímínúturnar. Þegar Sólveig svo kom í upphafi næsta tíma og sá að ekkert hafði verið að gert, komst hún svo að orði við bekkjarsystur mína: „Ljóta Bergþóra, þú ert ekki búin að sópa neitt!“ Það var afar ósanngjarnt, þar eð ég slapp við skammir, og ég hafði átt frumkvæðið að leikjunum.

Alltaf man ég þann dag þegar við Sævar bekkjarbróðir brugðum á það ráð að ganga heim úr skólanum. Ekki man ég þó tildrögin, ef til vill var mamma sein á sér að sækja okkur. Þegar kom að Sundlaugarveginum mundi ég ekki úr hvorri áttinni ég hafði komið um morguninn, frá hægri eða vinstri (í raun skipti það engu máli). Við tókum sénsinn hafandi gengið þetta langt og fórum til hægri og niður Laugalækinn, settumst svo á vegg hjá Kjötmiðstöðinni þar sem nú er 10-11. Þar leyfði ég Sævari að borða afganginn af nestinu mínu. Fyrir tilviljun rötuðum við heim þaðan og í þann mund er ég var að reyna að finna réttu bjölluna (gömlu nöfnin voru þar enn, svo ég fann hana ekki) renndi mamma í hlað, ætlaði í fyrstu að skamma okkur fyrir uppátækið en varð svo stolt af okkur að hún lét það eiga sig. Eftir það var ég til þess að gera frjáls ferða minna.

Og enn man ég eftir fyrsta skóladegi eftir áramótin ’90-’91, þegar við mættumst allir á leið í skólann við Sundlaugarveginn og ræddum um áramótaskaupið, þá sér í lagi afmælisveislu Ólafs Ragnars Grímssonar, þar sem Davíð Oddsson var frekastur. Það þótti okkur fyndið. Veturinn leið og virtist engan endi ætla að taka, sem þýðir ekki að hann hafi verið leiðinlegur – þvert á móti – en ég man alltaf einn kaldan febrúarmorgun þegar pabbi keyrði mig í skólann á græna Volvónum að ég spurði hvenær kæmi sumar. Það kvað vera langt í það og ég man ég kyngdi vitneskjunni með semingi.

Einhvern tíma á vormisseri 1991 sótti mamma mig og Sævar í skólann. Á leiðinni heim keyrðum við framhjá Björnsbakaríi, sem síðar var skipt út fyrir Kornið. Húsið er enn auðmerkt með stóru skilti á hliðinni sem lóðrétt er letrað á „Bakarí“. Sævar las á skiltið „írakab“ og spurði þvínæst hvort það væri ekki eitthvað sem alltaf væri í fréttunum. Ég þóttist nú vita að á skiltinu stæði bakarí, en vissulega kannaðist ég við eitthvað um írakab í fréttunum. Þá geisaði nefnilega Persaflóastríðið.

17. apríl 1991 mun ávallt skipa sérstakan sess í hjarta mér. Þá kom pabbi heim af næturvakt, í minningunni áreiðanlega kringum fimm um morguninn, í raun og veru var það áreiðanlega seinna. En hann kom ekki einn, hann hafði með sér kettling, læðu. Þá hafði ég suðað heillengi um að fá að eignast kött og líklega hef ég sjaldan fundið til þvílíkrar hamingju eins og þegar ég vaknaði þennan morgun og fann þessa litlu kisu sofandi uppi í rúminu hjá mér. Ég man þegar ég tilkynnti bróður mínum þetta að hann trúði mér ekki, sagði mér síðar að hann hefði haldið að ég hefði fengið enn eitt tuskudýrið.
Í fyrstu vildi ég kalla hana Lísu, Dísu eða Línu. Foreldrar mínir höfnuðu öllum þessum nöfnum en nefndu hana Perlu. Það nafn festist aldrei við hana nema hjá móður minni og móður hennar. Fljótlega fórum við að kalla hana Kisu. Því nafni, viðeigandi sem það er, heitir hún enn þann dag í dag.

Um viku eða tveimur að ég held, eftir að Kisa kom til sögunnar, skall á einhver allra versti stormur í manna minnum. Skólar lokuðu víðasthvar í Reykjavík vegna veðurs og þar með talið Laugarnesskóli. Held það hafi verið fyrsta morgun óveðursins að faðir minn fór út í Laugarneskjör að kaupa kattamat, en hann var óhugnanlega lengi á leiðinni miðað við að búðin var í sömu götu. Í millitíðinni kom Þórður bróðir minn heim að mér grátandi. Þá hafði ég ætlað kettinum hlutverk í einhverjum leik sem var henni ekki að skapi og þegar ég reyndi að þvinga hana til þátttöku tókst mér óvart að meiða hana. Mér varð svo við að ég fór að hágráta, þvílíkt skrímsli hafði ég orðið. Bróðir minn huggaði mig og sagði mér að líklega væri þetta allt í lagi, ég skyldi leita að kettinum og sjá hvort ekki væri allt í lagi með hana. Og viti menn, þegar ég fann hana og tók hana í fangið þá sleikti hún á mér nefið. Ég lærði mikilvæga lexíu á þessu og hef allar götur síðan verið málsvari þess að það sé börnum þroskandi að eiga gæludýr.
Loks kom pabbi inn úr dyrunum með poka af kattamat og Whiskas-dall sem kaupmaðurinn í Laugarneskjörum hafði gefið honum í kaupbæti. En jakkinn hans pabba var rifinn og skrámur voru á höndum hans. Vindurinn hafði hrifið hann með sér utan í girðingu, gott ef hún brotnaði ekki við það. Sem betur fór brotnaði pabbi ekki. Fleira brotnaði þó, því þegar skólinn opnaði aftur þurfti pabbi að keyra aðra leið í skólann. Stærsta og elsta tré hverfisins hafði rifnað upp hálfvegis með rótum og fallið yfir Kirkjuteiginn. Í heila viku lá tréð í götunni, eins og minnismerki um fyrri tign hverfisins, eins og áminning um að nú þyrfti að rétta við eftir óveðrið. Öll gamlárskvöld síðustu fimmtán ára samanlögð gætu ekki bætt það magn rusls sem lá yfir hverfinu eftir óveðrið. Meira að segja girðingarstaura mátti finna langt utan síns eðlilega samhengis. Liggjandi náði tréð alla leið úr húsgarðinum hvar það hafði áður staðið að girðingu skólalóðarinnar hinumegin götunnar. Stærra tré hefur enn ekki sést í Laugarneshverfi.

Síðasta minning mín úr sex ára bekk er dagurinn þegar bekkjarmyndin var tekin. Líklegast er það vegna þess að ég á myndina að ég man svo vel stundina þegar hún var tekin. Ef ég ætti skanna væri ég ef til vill nógu illkvittinn til að birta hana hér, en það þarf að bíða betri tíma. Frá myndatökunni er í sjálfu sér ekkert að segja, minningin er aðeins myndir, andartök, stemning. Myndin sjálf er mér þó afar kær.

Vitaskuld er margt ótalið hér en þetta verður að duga í bili.

Hvers vegna rifja ég þetta upp? Jú, færslan hennar Hjördísar kveikti upp í mér vissa útrásarþörf fyrir minningablætið mitt, og ég fór að hugsa um hvernig það verður þegar ég loks yfirgef hverfið mitt eftir að hafa búið hérna svo lengi. Einhverntíma var rætt um herbergjaskipti þegar bróðir minn eldri flytti út. Ég var ekki lengi að hafna boðinu, herbergið var orðið hluti af sjálfsmynd minni. Hverfið er það væntanlega og jafnvel ennfremur líka. Það hefur hinsvegar tekið þónokkrum breytingum gegnum tíðina og ég þekki það ekki fyrir sama sælureit. Of margt hefur breyst og hverfið er ekki lengur friðsælt, það er ofhlaðið nútímalegu úthverfastressi og bílaumferð, börn eru fáséð, en eitt sinn bjuggu hér aðeins börn að því er virtist. Allir vinir mínir eru fluttir héðan. Hér er fátt eitt eftir nema minningarbrot, myndir af Laugarneshverfi, tilfinningatengsl við löngu horfna hluti úr löngu liðinni æsku. Þess vegna mun ég ekki kveðja Laugarneshverfið með söknuði þegar ég flyt héðan – ég er löngu búinn að því.

Ef vel lætur geri ég kannske syrpu úr þessum minningum, þessum myndum, frá upphafi til enda grunnskólagöngu minnar. Næst tæki þá við veturinn 1991-1992. Margt gerðist þá sem vert væri að rifja upp. En við sjáum til hvort af því verði.