Fyrir ímyndaðan tíma vinn ég ímyndaða vinnu

Þessi hugmynd er fáránleg. Það að þjóðir Evrópu yfirhöfuð skuli gera þetta er fáránlegt. Verði hugmynd þessa apa að veruleika geta vinnuveitendur ekki átt von á því að ég mæti á ímynduðum tíma í vinnuna. Ég mæti þegar klukkan er átta, ekki þegar Alþingi segir að klukkan sé átta. Þetta er ein þessara hugmynda sem reglulega koma frá alþingismönnum bara til að það líti út fyrir að þeir séu að gera eitthvað, sem er ein af stærstu mýtum samtímans: Þingmenn gera ekki mikið annað en að vera fyrir. Að minnsta kosti þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Hvernig er svosem hægt að nýta sólarljósið betur á sumrin, þegar sólarhelvítið fyrst neitar að setjast?

Þessi fyrirsögn segir ekkert um innihald færslunnar

Já, nú kom nýi frakkinn sér vel. Meira veðrið.

Í gærkvöldi fann ég sjálfan mig í nýrri ábyrgðarstöðu. Sinni því auðvitað sem best ég get þótt síst hafi ég beðið um það. En sem betur fer hefur engum sýsifosarsteini verið velt á mig. Nóg er að gera samt.

Í gærkvöldi gerðist fleira, t.a.m. sat ég afar fræðandi fund með Auði og Uglu, þar sem fjallað var um jafnréttisráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna. Rakleiðis þar á eftir fórum við á knæpu hvar ég hitti víðfrægan bloggara. Eiginlega er hálfsúrrealískt að hitta fólk sem maður hefur aðeins haft samskipti við á netinu, en það er skemmtilegt.

Á morgun fer ég svo niður í Íslandsbanka (fer ekki núna vegna veðurs) og gerist aftur alvöru Íslendingur. Ég hef verið skuldlaus í heilt ár, en nú er kominn tími á yfirdrátt. Já, svona er þetta. En hvað getur maður sagt? Það var gott á meðan því stóð?