Útrás – Takk

Á laugardaginn fór ég í fermingarveislu þar sem allir ættingjar mínir voru að ræða einhvern söngleik sem þau höfðu séð í Lundúnum. Þau höfðu öll séð hann. Þetta er raunar alveg týpískt fyrir föðurætt mína, en samt stóð ég sjálfan mig að því að velta því fyrir mér hvernig á þessu gæti staðið, hvað það væri sem rekur fólk til Lundúna að horfa á söngleiki. Eru íslenskir söngleikir svo lélegir að fólk fer almennt frekar til útlanda að sjá söngleikina þar, eða fara þeir svona að sem séð hafa alla söngleikina hér heima og þyrstir í meira? Þessu vildi ég fá svarað. Svo las ég þessa grein, komst að því að mögulega er þetta aðeins einn liðurinn enn í „útrás Íslendinga“. Næst þegar ég fer á ættarmót ætla ég að spyrja fólkið út í nýjustu sýningarnar, hvernig útrásin gangi, hvort nokkur markaður sé fyrir íslensk leikhús í Lundúnum og ensk leikhús í Reykjavík. Ónumin lönd? Hver veit.

Hvað önnur mál snertir sit ég nú og hlusta á Sigurrósarplötuna Takk, sem ég keypti mér rétt í þessu fyrir peninga Glitnis – fjárfestingarbanka. Einhvernveginn finnst mér eins og platan henti afskaplega illa fyrir íslenskan hversdagsleika. Það er bara ekki sama upplifun að hlusta á plötuna fyrir framan tölvuskjá á þriðju hæð blokkar í fyrrverandi úthverfi Reykjavíkur, eins og í rútu, ferjandisk hóp ungs fólks gegnum skógi vaxið vetrarlandslag Finnlands til smábæjarins Jyväskylä klukkan níu að morgni. Það er ekki það sama, en platan er góð engu að síður. Að kaupa hana núna þegar vorið er að koma er samt algjör tímaskekkja.