Tirna 2006

Í minningabókinni Tirnu 2006 birtust af mér tvær hrikalegar myndir úr ’85 partíi 2005. Fyrst þær eru komnar á bók er óhjákvæmilegt að þær verði notaðar gegn mér síðar. Því getur varla miklu munað þótt þær birtist hér líka.

Mynd númer eitt: Nei, ég veit ekki alveg nákvæmlega hvað ég er að gera á þessari mynd. Það skelfir mig ögn. Ég treysti þó á að pósan hafi verið fullkomlega rökrétt miðað við aðstæður. Í það minnsta er engin heimild til um annað.

Mynd númer tvö: Við fyrstu sýn virðist heilbrigð skynsemi hafa tekið fallsæti fyrir hunangssætum veigum Dyonísosar. Það þarf þó ekki að vera rétt. Sé stellingin skoðuð útfrá fimri sveiflunni, viðkvæmri tjáningu bakhandar og karlmannlegum hörkusvip mínum sést gjörla að ég er að skylmast fyrir heiðri mínum við mann, sem móðgaði sómakennd mína og ataði mannorð mitt aur. Slíkum móðgunum taka heiðursmenn sem ég vitaskuld ekki óvarið á móti. Hafði ég sigur.

Næsta mynd birtist aftur á móti ekki í Tirnunni. Fyrir henni hef ég enga réttlætingu. Ég er ekki einu sinni viss um að ég vilji vita hvað í ísköpunum gekk á þegar hún var tekin. Ég er hreint ekki viss. Eina sem ég get sagt er guðminngóður.

Umfjöllun Víðsjár

Hér má finna stutta umfjöllun um upplestrarkvöld gærkvöldsins. Ég verð þó að vera ósammála Hauki Ingvarssyni um viðfangsefni okkar Kára og Emils, það var aðeins einn okkar sem fjallaði um upphaf heimsins, tilurð mannsins og fall hans. Ef til vill hefði ég betur sleppt því að segja orð um það. Það gerði hvort eð er ekkert fyrir upplesturinn að lýsa því hvernig bókin verður.