Lokaspretturinn

Ég hef ekkert gert í dag utan að skrifa grein á Múrinn. Samt á ég eftir að skila sex einnar blaðsíðu verkefnum, þriggja blaðsíðna ritgerð, heimaprófi í listasögu (það er sko ekkert djók) og læra undir listasögupróf sem ég þarf að sannfæra Brynju Vals um að leyfa mér að taka. Hún setti það skilyrði að ég semdi henni ljóð þar sem henni væri lýst sem íðilfagurri gyðju. Mín verður ánægjan.

Jú, eitt annað hef ég svosum gert, ég hef verið að reyna að átta mig á Háskólasíðunni. Allt gæti þetta þess vegna verið á fokkíng hebresku. Ég hef ekki hugmynd um hversu marga áfanga ég get valið á einni önn og þeim hjá Háskólanum virðist ekki geta verið meira sama. Svo fann ég raunar þessa síðu. Ef það er rétt til getið hjá mér að skammstöfunin ECTS þýði „einingar“ þá er ég klár. Finnst raunar skrítin tilhugsun að þurfa kannski að taka 10 eininga kúrs á einni önn. Er það ekki hálfgerð geðveiki? Þvílíkt tilbreytingarleysi þegar önnin er aðeins 15 einingar!

Hvar er upplýsingin?

Ég hélt það væri tíu vetra skólaskylda á Íslandi. Ég hélt að á þessum tíu vetrum færi fram einhvers konar kennsla í gagnrýninni hugsun. Ég hélt að þar væri kennd mannkynssaga, fordæmin sýnd sem víti til varnaðar. Annaðhvort hlustar enginn eða ég hafði rangt fyrir mér.

Ásgeir Hannes Eiríksson, fyrrverandi alþingismaður Borgaraflokksins, vill að stofnaður verði nýr stjórnmálaflokkur þjóðernissinna á Íslandi. Þjóðernissinni er krúttlegra heiti á nasista. Samkvæmt vefsíðu Alþingis er Ásgeir stúdent úr Verzlunarskóla Íslands. Það eru fjögur ár umfram skólaskyldu. Nú skilst mér að Verzlunarskólinn sé góður skóli og að mannkynssögukennslan þar sé til fyrirmyndar. Hvað fór úrskeiðis hjá Ásgeiri?

Ásgeir vill sjálfur ekki stofna nýjan flokk nasista á Íslandi, en segist dyggilega myndu styðja við bakið á hverjum þeim er stofna vildi slíkan flokk. Það er ágætt að menn geti lýst yfir stuðningi sínum við vafasamar hugsjónir á sama tíma og þeir játa að þeir þori ekki að vinna að þeim sjálfir. Greinilega hefur þá Ásgeir lært eitthvað um þjóðernisstefnu á árum sínum í Verzlunarskólanum. Í það minnsta veit hann að síst eru slíkar hugsjónir til að gera menn vinsælli.

Þó gengst hann við þeim opinberlega. Er það til marks um að áhyggjur mínar af uppgangi þjóðernishyggjunnar eru ekki með öllu ástæðulausar. Niðurstöður skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir Ásgeir benda til þess að enn sé tilefni til áhyggja. Um þriðjungur segist myndu geta hugsað sér að kjósa draumaflokk Ásgeirs. Flokkurinn, væri hann til, myndi helst sækja fylgi sitt til ungs fólks og fólks sem einungis hefur grunnskólamenntun, segir ennfremur í Morgunblaðinu um niðurstöður könnunarinnar. Kannski segir það minna um ungt fólk og lítið menntað en það segir um grunnskólakerfið.

Ég minnist þess að hafa lært um Hitler í gagnfræðaskóla, svo og þær hörmungar sem þjóðernishyggjan leiddi yfir Evrópu. En það er langt síðan ég var í gagnfræðaskóla. Enn lengra er síðan Ásgeir var í gagnfræðaskóla, en kannski þótti þjóðernishyggja góð þá. Kannski þykir þjóðernishyggja aftur góð núorðið. Kannski berum við okkur saman við Danmörku að þessu leyti sem svo mörgu öðru, þar sem nasistar nutu 20% fylgis í skoðanakönnunum síðast ég heyrði. Kannski næsta skrefið sé að varpa mannréttindaákvæðum Stjórnarskrárinnar fyrir róða. Við förum hvort eð er svo illa eftir þeim. Þau eru enda aðeins orð á pappír. Það er orðið múslimi líka, raunar, og gyðingar og útlendingar. Hjá Hitler voru gyðingar reyndar ekki orð á pappír heldur tölur, en það gildir einu.

Það sem við horfum upp á er gengisfelling orða mannréttindaákvæða Stjórnarskrárinnar í stað gildishleðslu orða eins og þau, við, útlendingar, múslimar, hommar, lesbíur. Þetta er að gerast alstaðar í kringum okkur. Þetta gerist þegar hið þveröfuga ætti í raun að gerast, það eru þessir eilífu dilkadrættir sem í hvívetna vilja draga umræðuna niður í svaðið. Teikn eru á lofti, menn lýsa því fjálglega yfir að þjóðernishyggjuflokkur sé málið, þriðjungur aðspurðra segist geta hugsað sér að kjósa slíkan flokk. Eitthvað er í ólagi hér, einhversstaðar mistókst okkur. Altént finnst mér ekki kræsilegt sjónvarpsefni þegar menn auglýsa eigin fáfræði og fordóma í fjölmiðlum. Sumt er hreinlega ekki verjandi. Hvar er upplýsingin?

– Birtist á Múrnum 20. apríl 2006.