Af núverandi íslenskunámi og verðandi

Hefst þá óformlega lestur fyrir íslenskuprófið. Á erfitt með að einbeita mér samt, er svo mikið að spá í næsta vetur. Til dæmis þessi hugmynd að fagavali fyrstu annar:

05.40.00 Aðferðir og vinnubrögð
05.40.01 Inngangur að málfræði
05.40.03 Íslensk hljóðfræði og hljóðkerfisfræði
05.40.04 Íslensk beygingar- og orðmyndunarfræði
05.40.06 Íslensk setningafræði og merkingarfræði

Ætli þetta sé nokkuð of heavy allt á sama tíma? Gott væri að fá álit íslenskugenginna manna á því hvort ráðlegt sé að klára málfræðina alla á sömu önninni. Svo bætast raunar við minnst tíu einingar aukreitis í málfræði að eigin vali. Tek áreiðanlega fleiri, a.m.k. málsögu og samanburðarmálfræði, ef boðið verður upp á slíkt. En það geri ég ekki fyrr en síðar.

Svo er hugmynd að taka alla skyldukúrsa í bókmenntum á einni önn, þetta eru 15 einingar í heildina:

05.40.21 Bókmenntafræði
05.40.20 Íslensk bókmenntasaga
05.40.22 Straumar og stefnur í bókmenntafræði

En hvað segja menn, hvort telja þeir ráðlegra: Skyld fög samtíðis eða fjölbreytni?

Þriðja færslan

Ég trúi ekki á stjörnuspár. Samt er ég áskrifandi gegnum tölvupóst og les hana reglulega. Og alltaf kemur það eins illa við kaunin á mér þegar stjörnuspáin mín virðist óþarflega viðeigandi. Eins og í dag, þá smellpassar hún, þar stendur orðrétt nokkuð sem ég hef verið að brjóta heilann um síðustu vikurnar. Þannig geta stjörnuspár stundum verið. Hinsvegar bjóða þær aldrei upp á svör. Í raun væri það bylting ef þær gerðu það.

Viðtalið gekk annars ágætlega. Fæ svar í vikulok. Sömuleiðis hafði ég erindi sem erfiði með för minni upp í skóla áðan. Sem von var að lá vel á öllum kennurum eftir djammið á föstudaginn.

Dagskráin í dag

Þá hef ég heimt hattinn minn úr helju (Hópferðamiðstöðinni). Ég nefnilega gleymdi honum í rútunni á föstudaginn. Þurfti að lemja hann dálítið til en það sér ekkert á honum, sem betur fer. Voða viðkunnanlegur bílstjórinn líka, ekkert að pirra sig á svona skussa.

Svo er það atvinnuviðtal hjá Borgarbókasafninu á eftir. Það er ekki laust við að ég sé dálítið stressaður. Enda ekkert smá í húfi. Rakleiðis þar eftir þarf ég að kíkja upp í skóla að hnýta nokkra lausa enda. Sumir kennarar þurfa bara að fá verkefnin dálítið seint. Þegar heim kemur fer ég svo að vinna í téðum verkefnum. Svo hefst prófalesturinn. Já, þá verður gaman að lifa.

Vegna viðtalsins þurfti ég að hafna kynningarferð með Svandísi Svavars upp í Verzló, sem hittist á sama tíma. Kannski eins gott, ég hefði farið sundur á límingunum af stressi. Ég veit yfirhöfuð ekki hvort ég treysti mér í þannig lagað. Finnst best bara að þvaðra um pólitík á netinu.

Sex dagar uns líður að starfslokunum miklu. Í fyrst datt mér í hug að kannski ætti ég eftir að sakna einhvers úr IKEA en gærdagurinn sló þá vitleysu alveg úr mér. Það er bara ekki ég að vinna við sölu. Þó get ég sagt að langstærstur hluti viðskiptavina hafi farið frá mér með bros á vör. Þó manni leiðist vinnan er ekki þarmeð sagt maður standi sig illa í henni. Onei.

Vorsnævi

Ég veit ég hef mikið talað um snjó í apríl en það sem blasir við núna jaðrar við hið fáránlega. Það hefur held ég ekki verið svona mikill snjór hérna í allan vetur. Vegna þessa hef ég verið í alveg skínandi skapi frá því ég vaknaði. Veit þó ekki af hverju. Ég keyrði mömmu í vinnuna því ég þarf að komast á bílnum í atvinnuviðtal klukkan ellefu, og ég var brosandi út að eyrum báðar leiðir. Án þess endilega að hafa nokkuð fyrir mér hvað það varðar er ég þess fullviss um að dagurinn eigi eftir að verða frábær. Kannski eru það bara tilbrigðin sem mér finnst svona skemmtileg.