Prófið

Próftíminn var alltof stuttur. Ekki skil ég hvað skólayfirvöldum liggur á að koma nemendum sem fyrst út úr prófum, en þá væri nær að gera raunhæfar kröfur. Og þegar hrognasvör við fjórum spurningum síðasta kortérið gætu kostað mig verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur, hlýt ég að spyrja hvers vegna fallið var frá þriggja tíma hefðinni. Eins og gjörla sést á fyrri helmingi prófsins stefndi ég á tíuna. Hana fæ ég ekki úr þessu.

Líkt var með stúdentsprófið í dönsku á sínum tíma. Þar hefði ég fengið tíu ef hefði ég ekki misst af smáa letrinu og svarað á dönsku 15% spurningu þar sem þess var krafist að svarað væri á íslensku. Mín rök í málinu voru hunsuð, en þau voru á þá leið að varla hefði mér gefist verr að svara spurningunni á mínu eigin móðurmáli. Ég fékk 8,5. Ekki einasta stig fékk ég fyrir hárrétt svar á vitlausri tungu.

Hvorttveggja gremst mér, þó meir það sem nær er í tíma. Mér þætti ekki óeðlileg krafa að allir yrðu hækkaðir um 0,5 í einkunn á prófinu frá í dag og að próftími yrði eðlilegir þrír tímar fyrir þau próf sem eftir eru. Hvað hlýtur það að segja um próf þegar mestur áhugamaður um viðkomandi fag getur ekki klárað það? Ennfremur, hvað segir það pars pro toto? Ef til vill hljómar það eins og hin versta sjálfhverfa en ég segi það samt: Ef ég átti ekki séns, hvaða séns áttu þá þeir sem ekki hafa eins mikla umframþekkingu á námsefninu, hafa ekki lesið sér til útfyrir efnið, lesið það upp til agna, hafa ekki tileinkað sér fræðin, beitt þeim sjálfir og elskað þau. Já, bókstaflega elskað þau.

Þetta var aldrei spurning um að standast eitthvað stúdentspróf. Það var spurning um að standast þær kröfur sem ég geri til sjálfs mín. Og í dag stóðst ég ekki þær kröfur. Skiptir þá engu um ytri eða innri orsakir. Fullkomnunarsinninn er engu bættari þótt það sé sendiboði til að skjóta, sama hvort hann skjóti hann eða ekki, því fullkomnunarsinninn gat alltaf gert betur. Jafnvel þegar hann átti ekki séns.