Teflt á tæpasta vaði

Í fornum annálum segir frá vitringi sem ferðaðist alla leið frá Býzans til Rómaborgar að tefla við mestan meistara taflsins í gervöllu pan-rómverska ríkinu. Hvumsa varð hann, er hann uppgötvaði upp úr miðjum leik hvern hann tefldi við.

Að öðru. Í laginu Vertu mér samferða inn í blómalandið amma eftir meistara Megas kemur fyrir setningin: „Já Guð býr í gúmmíinu, amma“.

Hvað ætli páfanum finnist um það?

Sótt á brattann

Það er gott að vera vitur eftirá. Það á við margt af því sem ég hef gert í dag. Eiginlega allt, nema prófið sem ég tók. Sem betur fór hélt ég vitinu meðan á því stóð.

Hinn dæmigerði Arngrímur lét nefnilega á sér kræla í nótt. Því eins og lögmálið segir: Þegar mest ríður á, þá klúðrar hann. Í nótt var það þannig að ég gat ekki sofnað fyrr en upp úr klukkan sex. Svaf kannski í um fjörutíu mínútur, fór svo upp í skóla.

Núna ríður á að sofna ekki, þar sem ég er einn örfárra sem þreytir próf í fyrramálið. Afar mikið lesefni. Spurningin er því hvort bregst fyrr miðað við kringumstæður: Lögmálið eða vitið.