Varist róttæka friðarsinna!

Oft heyrast í umræðunni þau rök að einhver tiltekinn aðili sé róttæklingur og því dæmi málflutningur hans sig sjálfan. – Nei, heyrist einhver segja, það er engin önnur leið fær í stöðunni en að reisa álver. Þeir einu sem eru á öðru máli eru róttækir umhverfisverndarsinnar eða – hrollur – listamenn. Fyrir utan að oft virðast listamenn ekki sérlega hátt skrifaðir hjá stjórnmálamönnum þegar kemur að gjaldgengi í pólitíska umræðu, þá leyfi ég mér að setja spurningarmerki við þann stimpil að vera róttækur.

Oft þarf ekki mikið til að teljast róttækur. Á tímum þegar sorfið hefur til stáls milli heimshluta og háðar eru hildir á hugmyndafræðilegum forsendum (altént á yfirborðinu), þá má hver teljast róttækur sem ekki fellir sig við annan deiluaðilann. Róttækir friðarsinnar eru þyrnir í augum þeirra sem styðja stríð. Þeir vilja frið á frið ofan og þeir dirfast að mótmæla þegar þeir fá ekki sitt fram. Þeir fella sig ekki við raunsæja stjórnarhætti æðrulausra leiðtoga sinna. Þess vegna eru þeir róttækir. Friður er róttæklingahugsjón hippa og mussukomma. Varist friðinn, helstu framfarirnar hafa jú alltaf orðið á stríðstímum, eins og allir vita.

Náttúruverndarsinnar urðu skyndilega „bara náttúruverndarsinnar“ á tímum Kárahnjúkadeilunnar 2003. Þeir eru það sumpart enn, en sumpart eru þeir orðnir „róttækir náttúruverndarsinnar“. Jafnframt eru þeir andvígir hagvexti, hvernig svosem það getur staðist, óvinir framfara og iðnaðar auk þess sem þeir daðra við kreppunornina hvenær sem færi gefst. Þeir eru róttækir óvinir lands og þjóðar, rétt eins og – hrollur – listamennirnir.

Þetta er það sem það er að vera róttækur. Að vera róttækur felst í að vera ósammála yfirvaldinu. Þeir sem hugsa útfyrir rammann sem þeim er gefinn, þeir eru róttæklingar. Og það þykir afar slæmt að vera róttæklingur. Það sést best á notkun þeirra á orðinu sem nota það mest. Friður er göfugt takmark. Náttúruvernd ætti að heita sjálfsögð; það hljóta alltaf að þurfa að vera einhver takmörk á því hversu nærri náttúrunni má ganga, án þess að einn eða neinn sé „á móti hagvexti“. Það eru alltaf fleiri leiðir en þær sem ríkisstjórn hvers tíma vill fara. Jafnframt munu þeir alltaf þykja róttækir sem benda á þær leiðir. Og meðan róttæklingar eru til munu meðalhófsgætandi stjórnmálamenn halda áfram að reyna að sverta málstað þeirra með álíka gæfulegum uppnefnum og „róttækur friðarsinni“.

– Birtist á Múrnum þann 24. maí 2006.