Á leið til menntunar

Annaðhvort er stutt skegg í tísku eða stjórnmálamenn eru hættir að nenna að raka sig. Dagurinn sem þingmenn mæta órakaðir og þunnir í Metallicabolum verður dagur til að minnast.

Naut alúðlegrar þjónustu kvennanna á nemendaskrá HÍ áðan. Kom þó á daginn að oss busum býðst ansi takmarkað kúrsaval svo myndin sem gefin er hér að neðan er skökk vægast sagt.

Fór post hoc með Kára á Vegamót þar sem drukkinn var bjór í blíðunni. Bjór er stóriðja stúdenta. Emil kom aðeins seinna. Þar var meðal annars rætt um listina og Lafleur og óþarft að taka fram að glatt var á hjalla, auk þess að Konungsbók greddukvæða og hvadfornoget barst í tal. Við erum nefnilega svo gasalega klárir og menntaðir eitthvað. Ja svei mér þá, ef Reykjavík hefur nokkru sinni verið fegurri en í dag!

Á fimmtudaginn verð ég svo geymdur í útlánadeild Kringlubókasafns. Alveg harðbannað að heimsækja mig á fyrsta degi, þegar ég er óreyndur og ótöff.

Morgunverður og H-skóli

ÁrnagarðurVaknaði eftir um þriggja tíma svefn til að keyra móður mína í vinnuna (vakti frameftir við að klára Draumalandið, eftir um sex vikna hlé vegna anna). Þá var ekki amalegt að koma við í hverfisbakaríinu og kaupa rúnstykki af bélvaða flagðinu því arna, sætu bakarísstúlkunni, sem táldregið mun hafa margan góðan drenginn. Þvínæst var keypt grænmeti, ostur og skinka. Með þessu drekk ég kaffi. Morgunverðurinn verður varla betri.

Ástæða þess að ég er á bílnum í dag er sú að ég nenni ekki að taka strætó upp í Háskóla. Það eru víst ekki allir tilbúnir að ákveða framtíð sína strax tveimur dögum eftir útskrift, en ég var búinn að ákveða það fyrir minnst þremur árum, jafnvel lengra síðan, ég bara man það ekki. Ekki búinn að vera utanskóla í heila tvo daga, onei. Ég held ég haldi mig við þetta fyrirkomulag í vetur:

05.40.00 • Aðferðir og vinnubrögð • (2,5e) • Haust • [ECTS: 5] • 2f
05.40.01 • Inngangur að málfræði • (5e) • Haust • [ECTS: 10] • 3f
05.40.21 • Bókmenntafræði • (5e) • Haust • [ECTS: 10] • 3f
05.40.03 • Íslensk hljóðfræði og hljóðkerfisfræði • (2,5e) • Haust • [ECTS: 5] • 2f
05.40.20 • Íslensk bókmenntasaga • (5e) • Vor • [ECTS: 10] • 3f
05.40.06 • Íslensk setningafræði og merkingarfræði • (2,5e) • Vor • [ECTS: 5] • 4f
05.40.24 • Goðafræði Snorra-Eddu • (5e) • Vor • [ECTS: 10] • 4f
05.50.18 • Íslendingasögur • (2,5e) • Vor • [ECTS: 5] • 2f
05.40.04 • Íslensk beygingar- og orðmyndunarfræði • (2,5e) • Vor • [ECTS: 5] • 2f

Undirstrikaðir kúrsar standa utan skyldunnar. Eins og glöggir lesendur taka eftir tek ég 15 einingar á haustönn en 17,5 á vorönn. Ákvað að prófa kerfið áður en ég geri eins og mér var ráðlagt, að hámarka einingafjölda per önn. Svo finnst mér dálítið leiðinlegt að hafa ekki rúm fyrir málsöguna strax á haustönn, eða íslenskt mál að fornu. Fannst réttast að taka grunnáfangana í málfræði áður en ég færi í virkilega djúsí stöffið. Þá verður næsti vetur bara þeim mun skemmtilegri!
Eitthvað segir mér svo að bókmenntafræðin verði fremur þungur kúrs, en mér er sagt að þyngsti kúrsinn innan sjálfrar bókmenntafræðinnar sé Straumar og stefnur í bókmenntafræði, og hann er ég skyldugur til að taka. Tek hann bara næsta vetur. Ó, Jesúspétur (hvers vegna er þetta ekki leyfilegt mannanafn, spyr ég), hve þetta er spennandi!