Kringlusafn

Frétt í Hér&Nú: Pípari á Porsche! „Mig bara langaði í hann.“

Kringlusafn í fyrramálið, fyrsti vinnudagur. Ég mæti í bættum tveedjakka með lonníettur. Hver veit svo hvaða ævintýri munu eiga sér stað á Kringlusafni í sumar? Margt býr á bókasöfnum. Forrannsókn fer fram á næsta fulla tungli. Þá verður horft á kvikmyndina The Librarian: Quest for the Spear. Tagline myndarinnar: „He didn’t want to be a hero. He only wanted a job.“ Það eigum við sammerkt. Áreiðanlega læri ég margt af henni.

Fyrsta útlitsþema Bloggsins um veginn, eftir flutningana yfir á Kaninkuna, hugði ég að eilífu glatað þegar Palli skipti yfir í WordPress. Ég var afar hrifinn af því á sínum tíma, en nú þegar ég hef endurheimt það er ég ekki svo viss. Ég ætla nú samt að leyfa því að standa hér yfir nótt. Lesendur geta þá sagt skoðun sína á hvort útlitið þeim þyki betra.

Svaðilför og bókakaup

Í gærkvöldi klukkan 23:55 skrifaði ég, en fjarlægði um hálftíma síðar:

„… kisan þarf á dýraspítala í fyrramálið, bakvaktin neitaði að taka við henni núna. Meinið fannst rétt í þessu, það er vinstri afturfótur. Sársaukafullt augnaráðið þegar ég snerti á fætinum nísti mig í innsta stað, og samt virðist greyið ekkert þjást er hún gengur. Ég get aðeins vonað að það sé ekkert alvarlegt.“

Það reyndist ekki meira en svo að það er ekkert að henni, utan að mögulega er hún alvarlega breima. Ótrúlegt! Fyrir þá vitneskju, góð sem hún er, fékk ég að skrúbba hland af kettinum, svo mjög naut hún sinnar fyrstu bílferðar í búri. Hún verður aldrei sett í búr aftur, fjandinn fari því fjarri! Rúmlega fimmtán ára gömul fékk hún þó a.m.k. að fara fyrsta sinni í bað.

Eftir stríð í baðkerinu sem endaði með hundblautum ketti og blóðugum fingri í sprittvotri grisju hélt ég niður í bæ til að skipta tveimur bókum sem ég fékk í stúdentsgjöf. Keypti í þeirra stað The Globe Illustrated Shakespeare – Complete Works Annonated og Turninn eftir Steinar Braga (sem virðist við fyrstu sýn töluvert fallegri bók en Áhyggjudúkkur (menn farnir að gefa sénsa)). Þriggja binda verkið Íslensk tunga keypti ég ekki því það var búið að hækka aftur verðið á því. En þá gefst mér færi á að spyrja fróða lesendur, áður en ég kaupi það, hvort það sé ekki áreiðanlega allt sem það virðist vera – algjör snilld semsagt?

Sitthvað misgott

Fyrrum vinnuveitendur mínir hjá sænska auðvaldinu ætla að borga mér laun þann 1. júní. Ekki veit ég nákvæmlega hvenær ég vann mér inn þessa peninga, en ég tek því fegins hendi.

Svo hef ég uppfært stjórnkerfi þessarar síðu lítið eitt. Núna get ég gert neðanmálsgreinar ((Og sjá, sköpunarverkið er harla gott.)). Það geri ég af eintómum flottræfilshætti.

Úff, eftir u.þ.b. kortér fer ég með Kisu á dýraspítalann. Mikið kvíði ég fyrir.