Að sex vikum liðnum

Það er útlit fyrir að ég muni skipta um dvalarstað í lok júlí. Þá verða rétt sextán ár liðin síðan ég flutti í Laugarneshverfið. Í fljótu bragði stefni ég ekki á að flytja þangað aftur, enda þótt hverfið sé rótgróinn hluti af sjálfsmynd minni. Sumt skilur maður einfaldlega eftir. Annað getur maður rifjað upp ef mann fýsir. Hverfið hefur líka tekið róttækum breytingum á öllum þessum árum og ég þekki það ekki fyrir sama. Skil ekki hver sjarminn á að vera núorðið. Varðandi nýtt heimilisfang þá er enn of snemmt að flagga því. En gerum samt ráð fyrir að lífið verði betra þar en hér.

Alræðissafnið

Ég er alveg hlynntur því að taka upp svona risastór, ríkisfasísk, mónótónísk skilti hér á safninu: „Strikamerki snúi upp“, „Skil eru dyggð“, „Sektarlaus bók er GÓÐ bók“, „Sekt er dauði“, „Frelsi er þekking“ o.s.frv. Jafnvel mætti skapa goðsögn um eins konar Stachanov bókasafnanna, sem aldrei tekur minna en hámarksfjölda bóka, les þær allar samdægurs og skilar daginn eftir.

Því miður eyðileggur mambótónlistin sem gellur ofan af Stjörnutorgi alla slíka stemningu.

Eitt enn fyrir svefninn

Einhver fann með Google færslu frá júní 2004 af gamla blogginu mínu, með leitarorðunum „fuck me lika hore“.

Það sem vísaði manneskjunni þangað er eftirfarandi textabrot úr Ave Mariu Schuberts: „O Mutter, höre Kindes Flehen, O Jungfrau, eine Jungfrau ruft! Ave Maria!“

Alveg er ég gapandi bit.

Staðreyndir um mig

Staðreynd 1: Ég tek sjaldnast mark á síðasta söludegi, aðeins því hvort maturinn sé sjáanlega skemmdur eða ekki. Þetta á sérstaklega við um brauð. Dæmið snýst svo við þegar ég matbý fyrir fleiri en sjálfan mig, sem gerist afar sjaldan.

Staðreynd 2: Mér finnst ógeðslegt að það sé mynd af Vetrúvíusarmanni Da Vinci falin í bréfinu undan kjötáleggi frá Goða. Myndin kemur í ljós þegar bréfið er hálfnað. Er þetta það sem ég var að borða? Hvers vegna í andsk. er mynd af nöktum gaur í gullinsniði undir spægipylsunni minni? Falin skilaboð? Orðaleikur? Ég er ekki einu sinni viss um hvort ég vilji vita það. En væntanlega verra ef kjötið er komið fram yfir síðasta söludag.