Svaðilför til Melrakkasléttu

Verðandi helstu spekingar ins háa skóla siðmenningarmegin við Öskjuhlíð hittust á Prikinu fyrr í kvöld og drakk annar þeirra kaffi og reykti meðan hinn slafraði í sig samloku í von um að komast með því skrefi nær guðdómnum. Að þeim andlegu veigum örugglega fyrir komið í meltingarfærum snillinganna örkuðu þeir borginmannlegir niður Bankastrætið í ævintýraleit, og lá því leið þeirra í bókabúð Pennans og þess liðna Eymundssonar í Austurstræti. Hafði annar vitringanna á brott með sér þaðan öll eintök búðarinnar af lagasafni Íslands frá 2003. Hinn, sá er þetta ritar, gerði sér gott með Undralands-Lísu Carrols og An Artist of the Floating World eftir meistara Ishiguro. Enda þótt hann hefði ekkert ætlað að kaupa sér. Fyrir því þykist hann ætla að lesa orð þau er rituð eru á pappír minnst annarrar bókarinnar í kvöld, og hafa gaman að. Þó veit hann að mikið þarf til hann byrji miðað við hversu hræóduglegur hann allajafna er við að lesa.