Raðir tilviljana

Hitti hana Brynju mína Vals fyrir utan Kringluna, sem gerðist svo elskuleg að skutla mér heim. Ennþá sami hrakfallabálkurinn, nú aðeins nýbúin að brjóta úr sér framtönn á franskbrauði. Jiminn eini, en alltaf jafn æðisleg þrátt fyrir klunnaskapinn.

Reyndist hún þegar á Öldugötuna var komið vera frænka mannsins á hæðinni fyrir neðan. Það vantar ekki raðir tilviljana, nú býr yfirmaður minn á bókasafninu, sem einnig er skyld móður mágkonu minnar auk þess að hafa unnið með henni, á hæðinni fyrir ofan mig. Alræmdi stærðfræðikennarinn úr MS, hann Gísli, býr svo í næsta húsi. Það gera sömuleiðis margir margir aðrir, sem mig óraði ekki fyrir að byggju hér þegar ég flutti inn: Dögg Hugos vissi ég af, svo er Ásgeir H., Ugla Egils, Fífa Finns, Sverrir Jakobs og hvadfornoget, en þá erum við raunar komin í næstu götu.

Gat loksins haldið áfram með An Artist of the Floating World í gær. Alveg er Ishiguro magnaður í að byggja upp stemningu. Eftir því sem lengra líður á bókina verður sögumaður áræðnari og öruggari um sjálfan sig, en frásögn hans sjálfs dregur aftur á móti úr fullvissu lesandans um stöðu og ágæti sögumanns. Ætli mætti ekki kalla þetta helsta einkenni hans sem rithöfundar. Því miður fór hann dáldið geyst með þetta í When We Were Orphans, svo mjög að oft langaði mig helst til að skalla vegginn þegar líða tók á seinni hluta bókarinnar. Hérna tekst honum talsvert betur að spúka lesandann undir rós. Mikil snilld. Get ekki beðið eftir að klára hana!

Þórbergur og King

Þetta hefur nú verið meiri helgin, er fullkomlega búinn á því eftir hana, og mörgum krónum fátækari. Nú gildir að ná sér aftur upp í lestrinum, þyrfti að klára þessa Ishigurobók sem fyrst, er skyndilega kominn með gríðarlega löngun til að leggjast á fullu í Þórberg. Ýmsar bækur á leslistanum þar: Sálmurinn um blómið, Rauða hættan, Suðursveitarbækurnar. Líklega byrja ég á Sálminum og les svo Kompaníið hans Matthíasar. Eftir viðtalsbókina hans Gylfa við Margréti hef ég fengið aukinn áhuga á svoleiðis bókmenntum. Aldrei að vita nema ég taki törn bara í að stúdera þær.

Sá svo brot úr hryllingsmyndinni Dreamcatcher áðan, eftir sögu Stephens King. Þar var maður að hægja sér þegar skrímsli stökk upp úr klósettinu og beit hann í rassinn. Ekki alveg minn mesti ótti í lífinu, en maður kannski hefur það svona bakvið eyrað næst þegar náttúran kallar. Freudíska bókmenntagreiningin myndi svo kannski leyfa þá túlkun að hér sé um bældar æskuminningar höfundar að ræða.

Í öllu falli hefur mér nú tekist að ræða Þórberg Þórðarson og Stephen King í sömu bloggfærslu. Samanburður á þeirra verkum tæki áreiðanlega aldrei langt útfyrir gálgahúmor. Fyrir utan auðvitað yfirgripsmikla þekkingu beggja á hryllingi hversdagslegra martraða – Þórbergur lætur hrökkál úr tjörninni bíta sig í besefann en King lætur skrímsli í klósetti bíta náunga í rassinn. En þetta var nú gálgahúmor, mikil ósköp.