Te í rigningunni

Ógeðslegt veður, þá er ágætt að eiga marokkóskt te. Já, loksins fékk ég teið sem ég hef þrábeðið um síðan ég fékk það í landinu sjálfu. Á bara enn eftir að finna réttu leiðina til að laga það. Það er nefnilega alls ekki sama hvernig það er gert. Og sykur, það verður að vera sykur.

Svo tók ég Bogart niðri á Aðalsafni áðan, The Big Sleep og High Sierra. Á þær horfi ég í kvöld. Svo skal því vitaskuld ekki gleymt að ég keypti mér um daginn The Desperate Hours. Það gera tólf Bogartmyndir sem ég hef séð í heildina, þrettán með High Sierra. Big Sleep horfi ég á aftur núna til að endurvega bógartafjölda veitta. En Desperate Hours fær þrjá bógarta, fyrir að vera ekki alveg nógu góð, en vel leikin og sniðug á köflum:
BogartBogartBogart

Rómantískt símaklám

Með morgunkaffinu á Kringlusafni eigum við jafnan í samræðum um allt og ekkert, að þessu sinni ræddum við um símavændi. Þegar samræðurnar fóru að ná nokkurri hæð datt mér í hug hvort ekki væri hægt að koma á laggirnar sams konar þjónustu fyrir hinar hjartahreinni sálir, þar sem hryggbrotnu fólki byðist að hringja inn og láta mæra sig Shakespeare/Byron-style: Shall I compare thee to a summer’s day? Thou art more lovely, and more temperate. And on that cheek, and o’er that brow, so soft, so calm, yet eloquent, the smiles that win, the tints that glow, but tell of days in goodness spent, a mind at peace with all below, a heart whose love is innocent! ((áhugasömum er bent á að þau ljóð sem eru notuð í þessari færslu eru: Sonnettur Shakespeare númer 18 og 76, og She Walks in Beauty eftir Lord Byron))

Að ógleymdri klassíkinni í What’s New Pussycat: Your face is pale, as the autumn moon!

Í það minnsta ekki eins subbulegt og að klæmast yfir símann. Í það minnsta fyndist mér huggulegra að liggja í rósabaði, grátandi yfir munarljóðum, en sitja rúnkandi mér á klósettinu við að símamærin slengir af sér þvengnum og hrærir í keraldi sínu. Vonum samt að þjónusta þessi færi ekki út í: O! know, sweet love, I always write of you, and you and love are still my argument; so all my best is dressing old words new, spending again what is already spent: for as the sun is daily new and old, so is my love still telling what is told. -Já, jááá!!! Haltu áfram, druslan þín! Hvernig blómstra rósirnar, hvernig?!!

Kertafleyting við Tjörnina

KertafleytingHef varla getað hugsað um annað en kertafleytinguna í minningu Hiroshima og Nagasaki við Reykjavíkurtjörn í allan dag; hún hefur valdið mér ómældum hughrifum, jafnvel áður en ég fór til að vera viðstaddur. Raunar, þegar á staðinn var komið, var helst til mikið rætt um skáldskap og pólitík. Sem betur fer hef ég þó enn ekki glatað þeirri tilfinningu sem hefur fyllt mig bróðurpartinn úr deginum, tilfinningu sem mig langar að vinna með og móta í sköpunarverk. Það er hræðilegt, það sem Truman skipaði fyrir, og afleiðingarnar sorglegar. Og það er erfitt að finna andagift í slíkum voðaverkum

Í það minnsta má reyna að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Kvöld sem þessi eru til þess að minna okkur á að fólk lét lífið í þessu voveiflegasta hryðjuverki mannkynssögunnar, fólk eins og við, fólk sem enn glímir við afleiðingarnar – geislun, vansköpuð börn, alvarlega og langvinna sjúkdóma. Fólk dó. Það er ennþá að deyja. Það mun halda áfram að deyja ((Samkvæmt þessari heimasíðu eru þrjár gerðir úranísótópa, með helmingunartíma frá um 4,5 milljarða ára til um 244 þúsunda ára. Ég skal ekki fullyrða um helmingunartíma auðgaðs úrans. Helmingunartími plútons er aftur á móti um 24.000 ár samkvæmt þessari heimild. Þykist ég ekki sérfróður, en það mun víst vera úran sem helst hefur verið notað.)). Engum veitir af að vera minntur á það, og engum er skotaskuld úr því að votta virðingu sína. Að fleyta kertum er ekki mikið, en það er það minnsta sem við getum gert.

Íbúar Hiroshima og Nagasaki dóu fyrir að fæðast í landi sem átti í stríði. Það eitt og sér er í senn sorglegt og ósanngjarnt. Gleymum því ekki heldur að kjarnorkuvígbúnaður er enn í fullu fjöri, og enn eru ríkisstjórnir sem segjast ekki munu veigra sér fyrir því að beita slíkum vopnabúnaði. Þar sem eru skotmörk er fólk. Fólk eins og ég, fólk eins og þú, fólk eins og börnin þín. Um stríð hef ég ýmislegt að segja, en hvað snertir notkun kjarnorkuvopna, guð, mér fallast hendur.