Föstudagur, laugardagur

Það hefur verið alveg afskaplega fallegur dagur í dag þótt hann hafi í mínu tilfelli mest farið í að jafna mig eftir dúndurskemmtilegt gærkvöld.
Hitti bróður minn á kráaröltinu, en honum hlotnaðist á dögunum sálfræðingsstaða á Hellu. Rökræddi við kantískan heimspekinema sem komist hafði að þeirri niðurstöðu að siðferðislega réttar aðgerðir væru þær sem framkvæmdar væru með góðum vilja. Hitti einn nýlegasta stuðjúrinn og fleiri sams konar upprennandi siðleysingja. Bjór, öl, mojito og ég get svo svarið að einhver borgaði ofan í mig staup, þótt ég muni nú hvorki hvar né hverslags. Og kvöldinu klykkt út með Kebab, nema hvað.
Held ég hafi barasta ekki skemmt mér svona vel lengi, alveg afskaplega lengi. Svo tók svo fallegur dagur við í dag að ég hálfskammast mín fyrir að hafa ekki nýtt hann betur. En það er víst matarboð hér í Vesturbænum í kvöld. Slíkt á það til að gleypa heilu dægrin. Svo detta íslenskunemar í það í kvöld. Það er nú svo.

Myrkvun Höfuðborgarsvæðisins

Vegna skipulagsklúðurs við að verða mér úti um bifreið komst ég ekki lengra en upp í Öskjuhlíð til að njóta myrkursins. Vafalaust hefði ég heldur átt að taka einn göngutúr um Vesturbæinn, þannig hefði ég notið þess betur. Líður þá og bíður uns rafmagnslaust verður í Vesturbænum. Þá er ég þotinn út með hatt minn og staf.

Eitthvað hefur ef til vill verið um skipulagsklúður meðal borgar- og bæjayfirvalda stór-Reykjavíkursvæðisins sömuleiðis. Eitthvað þótti mér gruggugt um að litast yfir Kópavoginn ofan úr Perlu og þegar ljósin voru kveikt á nýjan leik varð ég ekki var við neinar róttækar breytingar þar í bæ. Eiginlega alls engar. Og hvers vegna enginn slökkti á ljóskösturum kirknanna veit ég ekki, en þær voru ekkert of heilagar til þess að mínum dómi.

Raunar var þokkaleg stemning í Perlunni. Þar var margmenni komið saman og enda þótt stjörnurnar sæust ekki, þá var dáldið sérstakt sjá myrkrið yfir borginni. Og þegar ljósin voru kveikt, þá upplifði ég dálítið magnað. Skyndilega birtist Seltjarnarnesið eins og fyrir galdur út úr myrkrinu. Það var greinilega staður kvöldsins, þar hafa menn jafnvel slökkt á kertum svo þeir gætu notið myrkursins betur. Og þar hefði ég átt að vera.

Stjörnuvals

Star PartyJá, og ekki láta ykkur bregða klukkan tíu í kvöld þegar öll ljós verða slökkt í Reykjavík. Loksins verður sá draumur að veruleika og ég þakka framtakið. Ég ætla að finna mér einhvern góðan grasi gróinn stað til að leggjast á bakið, finna til smæðar minnar og velta vöngum. En fyrst og fremst njóta þess sem fyrir augu ber.

Bloggað úr vinnunni

Sem ég buðlast við að falla ekki í öngvit í gegndarlausri baráttu við hita og ógleði mæti ég í skóla og vinnu og þykist vera hress. Svitna viðstöðulaust í lófum og í andliti. Það veit ekki á gott.

Stend greinilega styrkum fótum í inngangskúrsinum að málfræði hjá henni Siggu Sig. Hef verið að fá góðar einkunnir og er vel kominn á leið með að koma mér í mjúkinn hjá henni líkt og hjá öðrum kennurum gegnum tíðina (mér er það einstaklega lagið). Í dag gaf hún mér nefnilega áritaða skýrslu með kveðju frá höfundum, um rannsókn sem hún lét gera á málnotkun gagnfræðaskólanema veturinn 1999-2000, og ég tók þátt í. Þessu komumst við að í fyrsta tímanum sem var kenndur. Gaman að því.

Í dag var farið í tíðir og horf. Get ekki annað en tekið undir með Höskuldi Þráinssyni að það eru bara tvær tíðir í íslensku. Hinar tíðirnar lýsa nefnilega mun fremur horfi en tíð.

Veikari

Eitthvað virðist mér hafa slegið niður í dag. Mætti í skólann í dag og var svo brattur á eftir að ég leit aðeins inn á Uppsali, settist niður með kaffibolla og lagaði sitthvað í handritinu mínu.

En nú ligg ég armur og aumur uppi í sófa með tebolla og parasetamól mér við hönd. Nú gildir því að taka því rólega ef ég á að geta mætt til vinnu á morgun. Leyfi mér ekki þann lúxus að taka annan frídag í að aumingjast heima.

Innihald fjarlægt

Það er ekki á hverjum degi að ég fái ábendingar um innihald þessarar síðu, en þegar svo ber við eru það jafnan sanngjarnar kröfur. Til dæmis þegar ónefndur stjórnmálafræðingur bar af sér rangar sakargiftir á eldri útgáfu Bloggsins um veginn. Vitanlega var það leiðrétt, enda ómaklega að honum vegið og mér lítt til sóma að láta það standa.

Að þessu sinni kom ábendingin raunar frá þriðja aðila og ekki á formi raunverulegrar kvörtunar. Mér fannst þó réttast að fjarlægja litla sögu sem ég hafði eftir téðum aðila og gerði á sínum tíma ráð fyrir að væri fjarska saklaus í endursögn. En ef til vill er alltaf best að halda slíkri þórðargleði fyrir sjálfan sig.

Vandamál dagsins

Sá mikli áhugi sem ég eitt sinn hafði á hljóðfræði er alveg fokinn út um gluggann. Liggur við að ég öfundi bókmenntafræðinema að fá að rúnka sér yfir bókmenntum daginn inn og daginn út í stað þess að lesa þessa epík: „Greinimörkin sem notuð eru [til að greina á milli samhljóða s.s. [i] og [j], innsk. bloggara], t.d. hljóðmyndun, hljóðgildi og atkvæðisgildi, eru hverful og geta brugðist á úrslitastundu.“ Eins gott að hafa það á hreinu þegar heimurinn rambar á barmi hljóðmyndunarlegra ragnaraka. Nei, þá hringi ég heldur í fónembösterana Kristján Árnason og Jörgen Pind.

Eining á Austurvelli

Í kvöld var farin söguleg ganga frá Hlemmi niður á Austurvöll. Andinn sem sveif yfir vötnum á fjöldasamkomunni við Austurvöll er það sem koma skal. Baráttan fyrir náttúrunni er langt frá því að vera lokið. Raunar verður henni aldrei lokið. Ekki nema þeir drekki þjóðinni með. Og það segi ég afkomendum mínum stoltur að þarna var ég, að ég barðist ásamt öllu þessu fólki fyrir náttúru Íslands, þá og alla tíð síðar.

Ómar Ragnarsson er þjóðhetja. Framlag hans til náttúruverndar og Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason eru einhverjar þær stórbrotnustu gjafir sem þjóðinni hefur hlotnast til lengri tíma. Með framlagi þeirra til affirringar orðræðunnar verður hægt að tryggja að Kárahnjúkavirkjun og afleiðingar hennar verði síðasta hryðjuverk sinnar tegundar sem framið verður í nafni þjóðnýtingar hér á landi.

Þegar ég kom heim uppgötvaði ég að maðkur var kominn í mysuna, þannig lagað, í kattamatinn öllu heldur. Þetta er í annað sinn sem það gerist að fluga verpi í kattamatinn með þessum afleiðingum. Taldi það að sjálfsögðu ekki eftir mér að demba öllu klabbinu undir brennheita bunu og drepa þannig öll þessi helvítis skrímsl á einu bretti. En nú spyr ég: Er nokkur leið til að fyrirbyggja þetta? Aldrei kom þetta fyrir á Laugarnesveginum!