Tilvitnun dagsins

Í myrkri þungu mætast kannski varir
og magna lífsins slátt í þöglu brjósti
og eins og sækir aldan heim að landi
er öldugjálfrið ríslandi við hjartað.
Og nóttin breiðir næfurþunna slæðu
af nærfærni yfir höfuð okkar beggja
og stjörnur himins öfunda mig allar
því augu þín í mínu hjarta sindra.
Í myrkri þungu mætast varir okkar
og magna lífsins slátt í þöglu brjósti;
þá verður kyrrðin klökk af fegurð þinni
og kossar okkar stjörnublik á himni.

-Úr bókinni „Herjólfur er hættur að elska“ eftir Sigtrygg Magnason.

Ausa vagnar

Annað hvort var strætóinn minn í dag útbúinn sérstökum skíðum til að gusa regnvatninu þeim mun betur yfir gangandi vegfarendur, eða vagnstjórinn gerði í því að keyra í förunum. Hvort sem er hlýtur það að skrifast á vagnstjórann.

Fyrir nokkrum árum fannst mér það afskaplega vinalegt þegar vagnstjórar heilsuðust er þeir mættust á leið. Nú upp á síðkastið hef ég þó velt fyrir mér hvort þetta sé ekki að nokkru leyti tilgerðarlegt, a.m.k. er það varla meira en sjálfkrafa viðbragð. Til dæmis virðast vagnstjórar á stofnleiðum heilsa beinlínis öllum kollegum sem þeir mæta, jafnvel yfir margar akreinar. Skyldu þeir allir vera svo góðir vinir?

Sumir vagnstjórar heilsa á móti en brosa ekki. Þeir hljóta að þykja leiðinlegri en aðrir. Sá sem keyrði vagninn minn í dag heilsaði ekki til baka. Þá getur maður spurt sig hvort það verði sérstaklega rætt á kaffistofunni á Hlemmi næstu daga. Ídeal vagnstjórinn hlýtur þá að vera eins og Noddy þegar kemur að því að vinka á ferðinni.