Um framtíðina

Arkaði frakkalaus af stað út í gamla vesturbæinn í léttu roki niður á Laufásveg þar sem beið mín bíll. Þaðan hélt ég í Kópavog að sækja frakkann sem gleymdist á Ísafirði í síðasta mánuði. Ísafjarðarlognið hefur fylgt frakkanum alla leið suður, því algjör stilla var komin á þegar ég skilaði bílnum af mér aftur.

Gekk í húminu og kyrrðinni meðfram tjörninni undir blikandi norðurljósum og fannst ég vera aleinn í heiminum. Fljótlega fóru ótal hugrenningar að svífa á mig, í fyrsta sinn á ævinni veit ég nefnilega ekki hvað tekur við að loknu þessu, hvað þetta nákvæmlega er sem ég er einu sinni að gera, hvað það nákvæmlega er sem mig langar að gera.

Kannski er ég ekki tilbúinn til að eyða bestu árunum á skólabekk, árunum sem ég hef til að gera það sem mér sýnist þegar mér hentar. Árunum áður en lífið staðnar og dauði dagvinnunnar hefst. Hvað langar mig til að gera? Ekki veit ég það. En er þetta akkúrat nákvæmlega það sem ég vil gera og starfa við í framtíðinni, það er ég ekki svo viss um lengur. Og þarmeð er fasti punkturinn í tilverunni fokinn. Það eina sem ég var alltaf viss um.

Drykkurinn

Í nótt var farið á mikið pöbbarölt með Jóni Erni og Emil. Kannski um hálffimmleytið erum við Jón staddir á Ellefunni þegar stúlka vindur sér upp að mér með orðunum: Hey, þú ert skáld! Svo nefndi hún við mig tiltekið ljóð, sagði mér svo að ég væri gott skáld. Það þótti mér mjög vænt um.

En þetta væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það að seinna um kvöldið stend ég við barinn og sama stúlka plantar sér við hliðina á mér, við kinkuðum vingjarnlega kolli hvort til annars eins og gengur. Mér til mikillar furðu pantar hún þá tvo drykki. Er þetta nú ekki einum of, hugsaði ég, og var farinn að úthugsa miklar flóttaleiðir ef vera kynni að drykknum fylgdi kaffibolli í heimahúsi.

Nema hvað, svo réttir hún einhverjum allt öðrum náunga glasið, hún var þá bara alls ekki að bjóða mér í glas. Eins gott að ég sagði ekkert. Það hefði verið óendanlega vandræðalegt. Það er nú meira líka hvað maður getur verið vangefinn.

Aldrei skyldi manni heldur vera boðið í glas af kvenmanni. Hins vegar er urmull af skuggalegum krullhærðum skeggjum sem eru til í að standa undir kostnaði af öllum drykkjum sem maður sporðrennir. Og var það svo í gær. Þakka Jóni Erni fyrir fylleríið.