Föstudagur, laugardagur

Það hefur verið alveg afskaplega fallegur dagur í dag þótt hann hafi í mínu tilfelli mest farið í að jafna mig eftir dúndurskemmtilegt gærkvöld.
Hitti bróður minn á kráaröltinu, en honum hlotnaðist á dögunum sálfræðingsstaða á Hellu. Rökræddi við kantískan heimspekinema sem komist hafði að þeirri niðurstöðu að siðferðislega réttar aðgerðir væru þær sem framkvæmdar væru með góðum vilja. Hitti einn nýlegasta stuðjúrinn og fleiri sams konar upprennandi siðleysingja. Bjór, öl, mojito og ég get svo svarið að einhver borgaði ofan í mig staup, þótt ég muni nú hvorki hvar né hverslags. Og kvöldinu klykkt út með Kebab, nema hvað.
Held ég hafi barasta ekki skemmt mér svona vel lengi, alveg afskaplega lengi. Svo tók svo fallegur dagur við í dag að ég hálfskammast mín fyrir að hafa ekki nýtt hann betur. En það er víst matarboð hér í Vesturbænum í kvöld. Slíkt á það til að gleypa heilu dægrin. Svo detta íslenskunemar í það í kvöld. Það er nú svo.