Farinn!

Eftir fimm og hálfan tíma held ég til borgarinnar við sundin. Eðlilega hugðist ég komast sem fyrst til hvílu svo ég stökk í bað í makindum mínum með mojito (er orðinn snillingur í að blanda þetta eftir matarboð hérna um daginn), skipti svo um rakvélarblað og hóf að raka mig í snatri. Tókst svo vel til að ég er enn að þrífa blóð og andlitsbita upp úr vaskinum. Skyndilega er ég svo kominn með glóðarauga (kannski Freyr hafi kýlt mig yfir astralplanið). Verð gæfulegur svona útlítandi í tollinum með engan farangur. Eða með orðum Þórbergs Þórðarsonar: Guð minn góður, svona ógeðslegur hafði ég þó aldrei verið!

Jæa, hegðið ykkur eðlilega hérna á klakanum meðan ég verð í burtu, og þið sem eruð annarsstaðar í heiminum hegðið ykkur eðlilega þar. Fullyrði ekkert um hvernig ég kem til með að hegða mér. Hafiði það gott!

Málfarið

Hátt uppi í háum skóla sat ég með háan kaffibolla í tíma þar sem ræddar voru háleitar hugmyndir um setningarliði og orðaröð. Í akademísku hléi brá ég mér útfyrir í stundarandakt með jafnvel hærri kaffibolla en áður og kveikti mér í sígarettu. Varð mér þá litið á skilti frá Íslenskum aðalverktökum, hverra gröfur og brjálsemdarmaskínur tröllríða nú öllu á háskólalóðinni við byggingu hinna tveggja háu þekkingarhofa. Á skiltinu stóð: Óviðkomandi aðgangur bannaður. Ætli stríðið sé þegar tapað?

Á biðstöðinni fyrir utan Félagsstofnun stúdenta má finna auglýsingu frá Glitnisbanka, hvar stendur: Fjármögnun atvinnuhúsnæða. Það er svo margt að þessu orðalagi. Nú, það er svosum hefð fyrir því að tala um fjármögnun, þótt ég sé kannski ekkert sérlega hrifinn af því. Nú er til dæmis KB-banki með slagorðið „Settu þér markmið og byrjaðu að spara!“. Fyrst þetta er hægt, þá væri kannski til fyrirmyndar ef Glitnir segði heldur: „Við fjármögnum atvinnuhúsnæðið“, ef bankinn á annað borð stundaði fjáröflun fyrir viðskiptavini sína. En það gera bankar ekki, þeir lána peninga, en þeir fjármagna ekki nokkurn skapaðan hlut. Kannski helst það væri Landsbankinn sem hefur fjármagnað t.a.m. ljóðabókaútgáfu og fleira í þeim dúr.

Nú, þetta er eitt, en hitt er svo annað, að ég er ekki einasta viss um hvort hugtakið atvinnuhúsnæði sé nógu tækt. Það finnst a.m.k. hvorki í Orðabók Háskólans né Íslenskri orðabók og hér gæti allt eins verið átt við hús sem er húsnæði að atvinnu (!) og hús undir atvinnustarfsemi. Þess vegna finnst mér að Glitnir hefði betur komið með eitthvað álíka banalt og „Alhliða húsnæðislán“. Ef áherslan þarf nauðsynlega að vera á húsnæði til atvinnustarfsemi mætti segja: Húsnæðislán undir atvinnurekstur. Eða eitthvað. Bara eitthvað annað en þetta óþolandi klisjukennda auglýsingamálfar, sem skilgreina mætti sem svo: Leiðindafrasar sem hitta eiga í mark en ENGUM dytti í hug að láta út úr sér í daglegu tali.

Upplesturinn

Já, upplesturinn í gær gekk þokkalega, við Emil og Kári lásum örfá ljóð af þvílíkri innlifun að fötin voru rifin af okkur í tryllingslegum fagnaðarlátum sem brutust út á eftir. Minnti sannast sagt á bítlamaníuna. Óvænta (óboðna) gestaskáld kvöldsins las svo upp úr höfundarverki sínu Stórum tárum og var uppátækið vitanlega óstinnt tekið upp af honum mér svo ég brást við á þann eina máta sem ég kunni, að rifja upp í hæversku minni óstaðfesta sögusögn frá Finnlandi sem ég hef einu sinni verið kýldur fyrir að halda á lofti. Ljóðið sem ég las upp í kjölfarið gæti svo vel orðið tilefni til frekari líkamsmeiðinga ef eiginmaðurinn fréttir.

Ljóð dagsins er WYSIWYG eftir Kára. Mig myndi langa til að fjalla eilítið um það frá mínum bæjardyrum séð en ég læt það vera að sinni (er alltof upptekinn við að lesa þessa grein eftir Einar Má). Læt nægja að segja að mér þykir það flott.

Út um minn glugga ég gugginn leit,
Fátt gaf þar að líta sem lifir.
Svívirta trjágrein bar við ský
Hrafnar tveir svifu yfir.

-Kári Páll Óskarsson.

Umræðan

Skyndilega sprakk út í Bloggheimum eldheit umræða um trú á móti vantrú í kjölfar bakþankapistils Davíðs Þórs Jónssonar um téð efni.

Nú var það síst ætlun mín að blanda mér inn í þessa umræðu, en sú spurning brennur á mér hvort sé umræðan díalektísk í eðli sínu, eða a priori málaflækjur í ætt við það sem Sókrates nefndi sófisma. Hið fyrra felur í sér lausn vandamálsins en hitt ekki.

Það skiptir mig svosum engu máli. Trúleysi jafnt sem afstæðishyggju virðist sífellt vaxa fiskur um hrygg á kostnað stofnanavæddra trúarbragða. Á móti kemur að líklega mun fólk alltaf trúa því sem það vill trúa.

Sjálfur tel ég að opinská umræða sé alltaf af hinu góða, jafnvel þótt menn verði æstir og snurða hlaupi á þráðinn. Í það minnsta er umræða sú sem nú er í gangi aðeins nýjasti hlekkurinn í keðju umræðna sem nær allt aftur til siðskipta, jafnvel lengra ef vel er að gáð. Og líklega er þess ansi langt að bíða að sjái til botns.

Sér í lagi þegar umræðan gengur í hringi.