Heiðabras

Góð færð á vegum um allt land að því undanskildu að krap er á Steinadalsheiði og Tröllatunguheiði er þungfær.

Þegar við Alli fórum hringinn um landið í sumar komum við Gilsfjarðarmegin að Kjálkanum og vorum að nokkru á ókunnugum slóðum. Hann hafði að vísu komið þarna einu sinni áður en það var eitthvað grunnt á landafræðikunnáttunni engu að síður. Leiðin lá upp á Steingrímsfjarðarheiði inn að Ísafirði, og samkvæmt vegahandbókinni (varist!) var stysta ómalbikaða leiðin yfir Steinadalsheiði, og þaðan væri stutt til Hólmavíkur. Hafandi svo keyrt Gilsfjörð inn að botni reyndist heiðin ekki ætluð fólksbílum. Síðar komumst við að því að það var um klukkutíma akstur eftir ómalbikuðum vegi frá Hólmavík til hins enda Steinadalsheiðarinnar. Bölvuðum við bókinni sem mest við máttum.

Ekki reyndist Tröllatunguheiðin falbjóða líkam sinn með nema litlu meiri þokka (hrægammar svifu yfir), og heimamenn sögðust sjálfir aldrei fara þá leiðina, svo þeir vissu ekki hvað biði okkar þar uppi. Var okkur þá sagt að Þorskafjarðarheiðin væri greiðfærasta leiðin og þá leið fórum við. Þó alls ekki án skakkafalla. Það sprakk undir bílnum og við neyddumst til að keyra heiðina með auladekk undir Kádiljálk sem nógu hafði verið lágur fyrir. Þaðan til Hólmavíkur að kaupa nýtt dekk, en dekk átti hann ekki, svo hann bauðst til að stoppa í sprungna dekkið fyrir okkur.

Helvítis okrarinn gerði það þó alls ekki nógu vel eins og fljótlega kom á daginn svo við neyddumst til að keyra langt yfir hámarkshraða í von um að ná á næstu bensínstöð. Tókum sikksakk á hundrað niður Hestakleifina milli Ísafjarðar og Mjóafjarðar, æpandi af hræðslu við hyldýpið fyrir neðan, og komumst við Alli loks við illan rammleik til Súðavíkur, þar sem við fylltum upp í hríðlekandi dekkið og brunuðum til Ísafjarðarkaupstaðar. Dekkið var gjörsamlega ónýtt þegar við vöknuðum morguninn eftir.

Þess vegna velti ég fyrir mér þegar ég sé þessa frétt, hvort ekki megi mikið koma til að menn viðurkenni loks að hinar heiðarnar tvær séu ófærar. Nema það sé hreinlega almennt viðurkennt utan minnar vitneskju að fólksbílar eigi ekkert erindi á Vestfjarðakjálkann.