Bókavarsla í praxís

Einar Ólafsson, skáld og bókavörður, bað í dag fyrir boð til mín um að ég skyldi hringja í sig. Þegar ég hringdi spurði hann hvort ég væri í þeim bransa að hirða ljóðabækur, það lægi nefnilega dágóð hrúga inni á Aðalsafni sem losna þyrfti við. Minna hefur greinilega ekki mátt muna að ég sendi út tilskipunina. Verður hún héðan í frá kölluð Sólheimatilskipunin. Jæa, fyrsta hlass bíður mín allavega þegar ég mæti til vinnu komandi þriðjudag. Jibbí!

Erfið mánaðamót núna. Afskaplega erfið. Venju samkvæmt skrapp ég í bankann í gær að greiða skuldir mínar. Rétti gjaldkeranum kortið mitt og hún sló mér upp í tölvunni sinni, óskaði mér svo til hamingju með daginn (eingöngu til þess fallið að láta mig fara hjá mér). Svo tók alvara málsins við: Fyrsti reikningur, annar reikningur, þriðji, fjórði. Summa: 108.000 kr. Eftirliggjandi úttektarheimild: 12.000 kr. Gjaldkerinn sá að mér var ekki skemmt. Nei, mér fannst afmælisdagurinn ekki skemmtilegur til þess að gera.

Undantekningar voru allar hamingjuóskirnar sem ég fékk, og lítil kaffihúsaferð með valinkunnu fólki um kvöldið, á kostnað hljóðkerfisfræðiverkefnis. Í afmælisgjöf fékk ég glæpasöguna Meiri bjór. Af því tilefni fékk ég mér meiri bjór.

Genie

Fyrr í dag horfði ég á heimildarmynd um úlfabarnið Genie. Ég held að aldrei fyrr hafi svo margar tilfinningar tekist á innra með mér samtímis. Einhverjir í bekknum grétu yfir myndbandinu. Ég furða mig ekki á því, ég átti ansi erfitt með mig sjálfur. Enda er saga hennar öll afskaplega sorgleg og á köflum hryllileg. Forboðna tilraunin kom hins vegar á hárréttum tíma fyrir málvísindin …

Ég er ekki viss um hversu gömul myndin er, mögulega er hún gerð seint á níunda áratugnum eða snemma á þeim tíunda, en þessi Wikipediasneið kom ekki fram í henni:

At the age of 20 months, Genie was just beginning to learn how to speak when a doctor told her family that she seemed to be developmentally disabled and possibly mildly retarded. Her father took the opinion to extremes, believing that she was profoundly retarded, and subjected her to severe confinement and ritual ill-treatment in an attempt to „protect“ her.

Í myndinni kemur raunar fram að ekki sé vitað hvað föðurnum hafi gengið til, en þessi skýring finnst mér afar hæpin af einni einfaldri ástæðu: Hann skaut sig þegar honum varð ljóst að Genie var sloppin. Það þýðir að hann vissi upp á sig sökina, mannhelvítið vissi upp á hár hvað hann hafði gert barninu sínu.

Eitt í þessu öllusaman er líka alveg á hreinu. Susan Curtiss, málfræðingurinn sem lengst af rannsakaði Genie og hjálpaði henni að læra að tala, skrifaði doktorsritgerð um rannsóknir sínar. Hana ætla ég að lesa.