Olnbogakisa

Ég fór í þann leiðinlega leiðangur áðan að taka kettlinginn Linsu frá eiganda sínum, uns henni hefur verið fundið varanlegt heimili. Vona að hún verði ekki alger olnbogakisa. Kisurnar tvær eru nú í óða önn að kynnast og sýnist mér hvorug ætla að leyfa hinni að valta yfir sig, svo þær eru heldur skeptískar hvor á aðra svona í fyrstu. Á meðan bröltir litla skoffínið yfir allt og alla, afar spennt yfir húsakynnum.

Nú hafa bæst við tvær frumútgáfur af Þórbergi í sívaxandi safn mitt, Íslenzkur aðall frá 1938 og Ofvitinn frá 1940. Fyrir átti ég Hvíta hrafna frá 1922. Þakka Brynjari Smára kærlega fyrir veglega afmælisgjöf.

Í öðrum fréttum er ég eitthvað einkennilega taugatrekktur. Get ekki sagt að mér líði neitt sérlega vel og ástæða þess virðist mér alveg vera á huldu. Er allavega að reyna að slappa af yfir tebolla og lokapróförk að bókinni minni meðan kettirnir tveir eipa hérna í kringum mig.