Úr heimi fræðanna

Einhversstaðar heyrði ég náunga gagnrýna Stafsetningarorðabókina nýju fyrir að vera ómögulegt fræðirit vegna fúsks og fabúleringa ritstjórnar. En gleymdi því að fúskið er kannski sök sér þar sem orðabækur teljast ekki til fræðirita.

Síðastliðinn föstudag var ég svo staddur á hugvísindaþingi uppi í Háskóla og hlustaði á málfræðing fara mikinn í síterun á rannsóknarskýrslu sinni. Eftirá kom fyrsta fyrirspurn: Hafði málfræðingur skoðað þýðingarmikið atriði X í rannsókn sinni? Nei, en hann þakkaði ábendinguna og skrifaði niður nafn heimildar. Gott og blessað.

Nema strax í kjölfarið berst fræðilegt kjaftshögg frá eldri málfræðingi: Augljóslega hefur rannsakandi ekki haft fyrir að kanna veigamikla ritgerð Y, 800 blaðsíður á lengd, sem ekki einungis varpar ljósi á áðurnefnt þýðingarmikið atriði X, heldur sé hún einasta heimildin um margt sem augljóslega kemur ekki fram í skýrslu rannsakanda, auk þess að vera frumheimild um ýmis atriði önnur sem rannsakandi vissulega rekur fram og aftur, skammarlaust vitnandi í eftirheimildir.

Mér kom aðeins eitt orð í hug: Úps.

Ljóð á ljóð ofan

Þegar ég mætti í vinnuna áðan beið mín dágóð hrúga af ljóðabókum merktar mér, sendar ofan af Aðalsafni. Ekki amalegt.

Í kvöld hef ég svo verið fenginn til að lesa upp á einhverri lokaðri (að ég held) samkomu sem ég kann engin alminleg skil á. Utan ég veit nokkurn veginn hverjir það eru sem að henni standa og í hvaða tilgangi. Skil raunar ekki alveg menningarhlutann, við verðum nokkrir listamenn af ýmsum toga að flytja okkar stykki, en samkoman er pólitísk og alveg askaplega afmörkuð sem slík. Að ég tel.